141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég er sammála honum um að þetta fari illa saman og að innlán séu að veði í áhættusömum stöðutökum, fjárfestingum og útlánum.

Ég vil aðeins vekja athygli á því sem hv. þingmaður sagði um smæð fyrirtækjanna, að þau væru illa til þess fallin að skipta þeim upp, en þá er það svo að það er einmitt ákveðin áhætta fólgin í smæð fjármálamarkaðarins vegna þess að stórir fjárfestar og einstakir atburðir geta haft gríðarlega mikil áhrif einmitt í svona litlu bankakerfi og geta þess vegna valdið miklu meira tjóni. Þannig að smæðin í sjálfu sér er ekkert síður áhætta en stærðin var hér á sínum tíma þegar bankarnir voru orðnir tífaldir að stærð miðað við þjóðarframleiðsluna.

Ég vildi bara aðeins vekja athygli á þessu. Og enn fremur vegna þess að ég veit að hv. þingmanni er annt um samkeppnisstöðu í viðskiptalífinu, að þeir sem stunda hreina fjárfestingarbankastarfsemi hér á landi, sem mun nú ekki vera nema kannski einn banki, hafa bent á þá staðreynd að samkeppnisstaða þeirra sé skert miðað við fjármálafyrirtæki sem geta nýtt sér tryggð og ódýr lán frá almenningi til þess að fjármagna áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi.