141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

skipulagsáætlun fyrir strandsvæði.

[10:44]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa óskað eftir samvinnu við ríkið um gerð nýtingaráætlunar fyrir strandsvæði en strandsvæðin á Vestfjörðum eru um þriðjungur alls strandsvæðis landsins. Með þeirri áætlun sem sveitarfélögin á Vestfjörðum eru að vinna er ætlað að fyrirbyggja þá hagsmunaárekstra sem við erum farin að verða vör við, eins og ég sagði áðan, sem og að draga úr álagi á umhverfið auk þess að reyna að auka samkeppnishæfni svæðisins og snúa þannig við neikvæðri mannfjöldaþróun á Vestfjörðum síðustu 30 árin.

Gerð nýtingaráætlunar samræmist þeim ásetningi sveitarfélaga á Vestfjörðum að efla svæðin með sameiginlegri stefnumótun sem byggir á styrkleikum svæðisins og þeim auðlindum sem þar er að finna, ekki síst á haf- og strandsvæðum. Eins og ráðherra kom inn á mun þessi vinna nýtast afar vel þeim stofnunum ríkisins sem tengjast hafi og strönd, þær hafa í raun mikinn hag af þessari vinnu. Þess vegna langar mig að spyrja ráðherra hvort hún sjái einhvern flöt á því að ríkið komi enn frekar að þessari vinnu. Það er ljóst að í stóra samhenginu er ekki um háar fjárhæðir að ræða en þeim mun ríkari eru hagsmunirnir. Ég held að sveitarfélög á Vestfjörðum þurfi að óska eftir því við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að það komi enn frekar að þessari vinnu með fjármagni.