141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

skipulagsáætlun fyrir strandsvæði.

[10:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu vil ég endilega taka fram að ég met mikils það frumkvæði Vestfirðinga sem þarna er á ferðinni. Það er alveg ljóst að þar hefur verið unnið mjög mikilvægt starf og að mörgu leyti hefur með þeirri vinnu þetta viðfangsefni verið kortlagt. Eins og hv. þingmaður bendir á er gríðarlega mikil gróska í atvinnuþróun út á þessi svæði og ekki bara að því er varðar fiskeldi og annað slíkt, heldur ekki síður ferðaþjónustumöguleika. Einmitt þess vegna þarf að halda utan um þá þætti líka.

Samstarf sveitarfélaganna við ríkið sem um ræðir er algjört lykilatriði og því verður haldið kirfilega til haga, í tengslum við landsskipulagsvinnuna en ekki síður frumvarpsvinnuna þannig að ég vænti mikils af samstarfi við Vestfirðinga hér eftir sem hingað til.