141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

skerðing elli- og örorkulífeyris.

[10:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Virðulegi forseti. Með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var gerð breyting á lögum um almannatryggingar sem fólst meðal annars í því að tekjutengja grunnlífeyri við tekjur frá lífeyrissjóðum. Þar með tóku lífeyrissjóðsgreiðslur að skerða grunnlífeyri vegna elli og örorku í fyrsta sinn í sögunni. Lögin tóku gildi þann 1. júlí 2009, fyrir rúmum þremur árum. Lífeyrissjóðstekjur höfðu fram að þeim tíma ekki haft áhrif til lækkunar á greiðslum.

Í greinargerð með áðurnefndum lögum segir að í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í ríkisfjármálum verði að teljast nauðsynlegt að láta þessar tekjur teljast til tekna við útreikning elli- og örorkulífeyris. Lögð var hins vegar áhersla á það að um tímabundnar ráðstafanir væri að ræða. Lögin voru harðlega gagnrýnd af hagsmunaaðilum. Ljóst má vera að það skiptir engu máli í dag hvort einstaklingur á lágmarkslaunum hafi greitt í lífeyrissjóð eða ekki. Hann er jafnsettur.

Þjóðfélagshópar á borð við opinbera starfsmenn hafa fengið til baka skerðingar sínar frá 2009. Hæstv. velferðarráðherra telur að minnsta kosti svigrúm til rausnarlegra launahækkana þegar kemur að stjórnendum ríkisstofnana eins og frægt er orðið.

Ég vil því spyrja hæstv. velferðarráðherra: Hvenær fá eldri borgarar og öryrkjar sína leiðréttingu? Hvenær verður afnumið áðurnefnt bráðabirgðaákvæði um að lífeyrissjóðsgreiðslur skerði grunnlífeyri?