141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

skerðing elli- og örorkulífeyris.

[10:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við deilum ekki um það að að sjálfsögðu á að tryggja að lækkanir til eldri borgara gangi til baka. En það er ekki hægt að gera tvennt í einu, ef við erum að breyta almannatryggingunum og breyta skipulaginu í heild, einfalda kerfið, koma með virkari þátt lífeyrissjóðanna inn í kerfið með verulegum fjármunum til framtíðar, verðum við að skoða það sem breytinguna þegar við erum að endurskoða þetta í heild.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni, lífeyrissjóðirnir eiga að hafa vægi, þeir eru mikilvægir og við eigum að styrkja þá sem hluta af almannatryggingakerfinu til langs tíma. Þannig hefur kerfið verið byggt upp frá upphafi og ég vara við allri umræðu um að breyta því að vera með sjóðsmyndun og greiðslur í gegnum lífeyrissjóðina. Þess vegna höfum við lagt áherslu á það í allri vinnu með aðilunum sem þarna hafa komið að málum. Þar hafa stéttarfélögin líka komið inn sem og fulltrúar lífeyrissjóðanna og Samtaka atvinnulífsins. Það skiptir gríðarlega miklu máli að ávinningurinn af lífeyrissjóðunum verði sýnilegur og út á það ganga hugmyndirnar um breytingar á almannatryggingakerfinu.

Hvenær þetta gengur til baka hangir saman við heildarbreytinguna.