141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

Þingvallavatn og Mývatn.

[10:54]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um Þingvallavatn og Mývatn. Þau eru í hópi merkilegustu vatna í öllum heiminum og við berum öll ábyrgð á að lífríki þeirra og sérstaða varðveitist. Nýlegar fréttir af málningarmengun vegna töku kvikmyndar í Þingvallavatni vekja upp spurningar sem og fréttir af miklum gróðurskemmdum við Silfru sem er heimsfrægur staður til köfunar. Nú er þjóðgarðurinn á Þingvöllum á ábyrgð Alþingis í gegnum Þingvallanefnd og ég ræddi þetta mál stuttlega við formann Þingvallanefndar hér í þingsal í gær.

Í framhaldi af því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra frekar út í þessi mál sem skipta okkur öll mjög miklu máli, þá sérstaklega um aðkomu umhverfisráðuneytisins að þessum málum ef hún er einhver. Telur hæstv. ráðherra að núgildandi reglur við vatnið, bæði í þjóðgarðinum og við vatnið í heild, séu nægilega góðar til að vernda það réttilega? Þarf ekki ef til vill að taka alla umgengni og umferð í þjóðgarðinum og í kringum vatnið allt til gagngerrar endurskoðunar og reglur þar að lútandi?

Einnig berast fréttir um að tærleiki Þingvallavatns sé ekki sá sami og áður. Utan lífríkisins skapar tærleiki Þingvallavatns því algjöra sérstöðu á heimsvísu. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort til séu einhverjar upplýsingar um hvað er að gerast þar, hvaða rannsóknir séu í gangi og hver verði viðbrögðin ef í ljós kemur að þetta er rétt og að ástæðurnar fyrir þessum breytingum á tærleika vatnsins séu kunnar.

Er ef til vill þörf á nýrri heildstæðri löggjöf um Þingvallavatn og þá Mývatn líka sérstaklega eða er hægt að efla og stækka friðlýsingarsvæði þessara vatna með einhverjum hætti þannig að þau verði ekki mengun að bráð?