141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

Þingvallavatn og Mývatn.

[10:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra svörin. Það er rétt að þetta er stærra mál en hægt er að ræða hér á þremur mínútum í óundirbúnum fyrirspurnatíma en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti þá í náinni framtíð upplýst þingið frekar og ítarlegar um þessi mál, e.t.v. í formi munnlegrar skýrslu eða sérstakrar umræðu um málið. Það er erfitt að eiga við þessa þætti og komið hefur greinilega í ljós hvað þetta fyrirbæri vöktun er brogað. Hvað ætla menn að gera þegar þeir eru búnir að vakta svæði og komast að því að það er að mengast? Á að stöðva umferð í gegnum Þingvallaþjóðgarð? Á að loka rotþróm sumarbústaða? Vöktun er ofmetið fyrirbæri og menn þurfa náttúrlega fyrst og fremst að taka á hugsanlegum mengunarþáttum fyrir fram og áður en farið er í breytingar á þessum viðkvæmu svæðum.

Ég óska þess að hæstv. ráðherra svari því hvort hún geti lagt fyrir þingið einhverjar frekari upplýsingar um þetta mál í náinni framtíð og gert því betri skil (Forseti hringir.) akkúrat hvað er í gangi á þessum svæðum.