141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

svört atvinnustarfsemi.

[11:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Á undanförnum dögum hefur mikið verið rætt um svarta atvinnustarfsemi í þjóðfélaginu. Ríkisskattstjóri lét hafa það eftir sér í fréttum í fyrradag að undanskot hafi aldrei verið meiri og vísaði hann þá sérstaklega til ferðaþjónustunnar en einnig var þetta niðurstaða rannsóknar hans og fleiri á fyrirtækjum í byggingariðnaði. Ég vil leyfa mér að fullyrða hér að þetta vandamál, sem við eigum ekki að sætta okkur við, sé ekki hægt að einskorða við ferðaþjónustuna eða einhverja eina grein heldur sé þetta mun víðtækara vandamál og meinsemd sem ég held að við getum öll tekið undir að þurfi að uppræta. Fylgifiskar svartrar atvinnustarfsemi eru miklir, það eru minni tekjur ríkissjóðs og einnig möguleg misnotkun á velferðarkerfinu, á atvinnuleysisbótakerfinu, sem ríkisskattstjóri greindi hér frá. Allir tapa þegar allir ættu í raun að vinna.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessu vandamáli og hvernig ríkisstjórnin ætli sér að bregðast við því. Telur hún að skattahækkanir, eins og til dæmis nýboðaðar skattahækkanir í ferðaþjónustunni, séu til þess fallnar að uppræta þetta vandamál, hækkun skatta og flóknara skattkerfi? Við vitum að ríkisstjórnin hefur gert yfir 100 skattbreytingar á þessu kjörtímabili. Er það eitthvað sem hæstv. forsætisráðherra telur til bóta til þess að uppræta þetta vandamál?

Varðandi skattahækkunina á ferðaþjónustuna, hækkun virðisaukaskatts á gistingu úr 7% í 25,5%, eins og boðað hefur verið, þá lendir þessi hækkun fyrst og fremst á þeim heiðarlegu. Væri ekki ráðlegra fyrir hæstv. ríkisstjórn að falla frá þessari skattahækkun, leggja meira kapp á að uppræta svarta atvinnustarfsemi í þessari grein (Forseti hringir.) og ná þannig til baka þeim tekjum sem ríkið verður af?