141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

svört atvinnustarfsemi.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ég megi segja að allir flokkar í þessum þingsal vilji leggja sitt af mörkum til að taka á því vandamáli sem undanskot frá skatti er. Ég veit ekki betur en að fyrir Alþingi liggi tillaga þar að lútandi sem ég hef að vísu ekki skoðað en ég veit að þingmenn hafa af þessu áhyggjur.

Þegar talað er um 100 skattbreytingar hjá þessari ríkisstjórn í gegnum tíðina er það auðvitað eins og það er, þar er í mjög miklum mæli verið að tala um verðlagsuppfærslur. Við höfum þurft að fara í skattahækkanir, fyrr má nú vera. Við vorum með 218 milljarða halla þegar við tókum við og með einhverjum hætti varð að taka á því. Ég ítreka bara, virðulegi forseti, að ég held að við höfum farið eins skynsamlega í það og hægt var. Ég er auðvitað sammála þingmanninum í því að best sé að hafa skattkerfið sem einfaldast en við eigum líka að hafa það sem réttlátast og það var það ekki í tíð sjálfstæðismanna.