141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:25]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Það liggja fyrir vísindalegar upplýsingar og fræðigreinar og margt fleira um þetta brýna málefni og það sé mjög mikilvægt að ráðast sem fyrst í gagngera endurskoðun á lögum og reglum er varða vörslu búfjár, beitarstýringu og landnýtingu. Það er góð reynsla af beitarhólfum á Reykjanesi. Það er enn fremur fyrir hendi lagafrumvarp frá árinu 1930. Aðalatriðin eru beitarstýring eftir beitarþoli og reglur um ítölu, þ.e. fjölda fjár sem beita má á hverju svæði. Það er skynsamleg og sjálfbær landnýting. Meðan fé er beitt á land sem þolir ekki beitarálagið utan annað álag er landnýtingin óskynsamleg og veldur uppfoki og landeyðingu. Það vill enginn, allra síst bændur. Þeir vilja það ekki. Úrbóta er þörf og fara þarf af stað með málið í anda handbókar Alþingis, forsætisráðherra og innanríkisráðherra um samningu lagafrumvarps frá árinu 2007.

Í ljósi þessa spyr ég hæstv. umhverfisráðherra hvort hún sé tilbúin að skipa þegar í stað nefnd sérfræðinga og hagsmunaaðila til að semja lagafrumvarp um málið. Það er ekkert því til fyrirstöðu í dag. Nefndin geri þarfagreiningu, leiti umsagnar, afli fyrirliggjandi upplýsinga svo sem um beitarþol einstakra landsvæða, beitarhólfa, geri tillögur um lagabreytingar svo sem um framkvæmd og um ítölu og geri kostnaðarmat.

Ég tek fram að afkoma og fjárhagsstaða bænda er þannig að þeir ráða ekki við verkefnið einir. En aðkoma þeirra og náin samvinna er óhjákvæmileg, t.d. á grundvelli hugmyndafræði hins farsæla en því miður fjársvelta verkefnis Bændur græða landið.

Ég á ekki von á öðru en ráðherra bregðist skjótt og vel við og bið um skýr svör hennar.