141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:28]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegi forseti. Í tilefni af þessari umræðu langar mig að gera að umtalsefni, á þeim stutta tíma sem ég hef, nýlegan upprekstur á almenninga við Þórsmörk sem komst í hámæli í sumar. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá umræðu sem hér er komin í gang og hvetja hæstv. umhverfisráðherra til dáða í þessum efnum.

Sá árangur sem náðst hefur í landgræðslu á Þórsmerkursvæðinu, á Goðalandi, á undanförnum áratugum er ekkert annað en stórkostlegur eftir að þar var friðað og beit var hætt upp undir 1990. Skógurinn hefur hækkað og þést og hæstu trén á svæðinu eru nú orðin hærri en 10 metrar. Birkið hefur einnig sáð sér út á almenningum í Stakkholti og fram á Steinsholt. Í dag eru skógar og nýgræðingur komnir úr 200 hektara svæði í rúmlega 1.500 hektara svæði og stök tré finnast einnig á mun stærra svæði.

Það er auðvitað ekki skortur á beitilandi sem er að reka bændur af svæðinu undir Vestur-Eyjafjöllum til að beita þetta land heldur eru þeir fyrst og fremst að reyna að tryggja sér þann upprekstrarrétt sem þeim var dæmdur í Hæstarétti árið 2007. Það er skiljanlegt, en það er hægt að gera það með öðrum hætti en að beita landið. Þannig gera bændur í Holta- og Landsveit það með Veiðivatnasvæðið, þeir smala svæðið haust hvert til að leita þar að flökkukindum og viðhalda þannig rétti sínum án þess þó að beita landið.

Það er óþarfi að stilla málinu þannig upp að það sé í átakafarvegi og hér séu umhverfisverndarsinnar eða landvinir á móti bændum. Það er af og frá. Þetta sýnir bara veikleika í skipulagsmálum okkar sem þarf að taka á og ég held að við ættum öll að geta verið sammála um að hvetja hæstv. umhverfisráðherra til dáða í þessum efnum og fundin verði farsæl lausn sem allir geta sætt sig við.