141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir þakka ég fyrir þessa umræðu og ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir mjög fróðlega ræðu um ýmis atriði sem mér var ekki kunnugt um svo ég viðurkenni það bara hér í þessum ræðustól.

Það er rétt sem hér hefur komið fram og hæstv. umhverfisráðherra greindi frá í sinni ræðu, land grær meira en það eyðist. Þess vegna er mikilvægt þegar menn ræða þessi mál að hafa í huga þær staðreyndir og framþróunina sem hefur orðið í þessu samhengi. Það er rétt sem hér hefur komið fram, sauðfé hefur fækkað gríðarlega í landinu á undanförnum áratugum, um helming eða frá því að vera tæp milljón árið 1978 í tæplega 500 þúsund núna. Alls ekki allt sauðfé fer á afrétt núna, eitthvað í kringum 20–25% er rekið á afrétt. Annað er í heimahögum. Bændur hafa undirgengist gæðastýringarkröfu sem felur meðal annars í sér ábyrga meðferð á landinu, það er ekki verið að beita á viðkvæmt land o.s.frv.

Hér hefur líka verið minnst á hrossabeitina og hún hefur mikil áhrif. Bændur leggja mikla áherslu á gott samstarf. Það var talað um hagsmuni áðan, reyndar var notað orðið sérhagsmunir sem mér fannst ekki viðeigandi í þessu samhengi og ég leyfi mér að fullyrða í þessu samhengi að engir hafi meiri hagsmuni af því að vel sé gengið um landið og um afréttina en bændur. Þeir hafa afkomu sína af því að nýta þetta land og yrkja það. Ég held að í góðu samstarfi allra aðila eins og mér heyrist þessi umræða vera dæmi um getum við tryggt að vel verði gengið um landið okkar hér eftir sem hingað til.