141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:41]
Horfa

Jón Kr. Arnarson (Hr):

Þetta hefur verið afar gagnleg og fróðleg umræða, tel ég. Ég vil reyndar lýsa því yfir að ég er mjög sammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, um það að mjög víða eru þessi mál í góðu lagi en eins og ég nefndi í upphafi er enn þá verið að beita land sem er óbeitarhæft. Við höfum öll gögn sem styðja það, m.a. hvar þessi lönd eru. Annað er, eins og hv. þingmaður talaði um svarta sauði áðan, að það er verið að beita um 10% af sauðfé landsins á þessum svæðum. Í rauninni er þetta bara mál sem þarf að leysa og það strax.

Í þeirri umræðu sem hefur verið mest hér hefur verið fjallað um land sem er ýmist í góðu eða sæmilegu ástandi og þar á við þessi beitarstýring, gæðastýring, ítala og þeir þættir. Í landi sem ekki þolir beit á ekki að beita. (Gripið fram í.) Það er bara málið. Þessu verðum við að breyta strax af því að gróður og jarðvegur er mikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar. Það vita bændur.

Ég verð samt að segja að það eru ákveðin vonbrigði að það eru mýtur í gangi um sauðfjárrækt. Ég hef orðið var við þær og því miður get ég ekki farið í gegnum það allt saman. Mig langar þó dálítið að tala um sauðfjárfjöldann. Það er alltaf verið að tala um fækkunina sem hefur verið á síðustu áratugum. Það er alveg rétt, en þetta er algjör undantekningartoppur sem er miðað við. Í sögulegu samhengi er margt fé á Íslandi í dag og þess vegna er einmitt mikilvægt að stýra beitinni með miklu betri hætti en hefur verið gert hingað til og svo ég vitni aftur í formann Landssamtaka sauðfjárbænda má gæðastýringin ekki vera máttlaust plagg.