141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu hið sígilda og margupptekna mál, lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Það er rétt að fara aðeins yfir það við 2. umr. hvernig málið kemur mér fyrir sjónir og hvernig það flaut í gegnum þingið þegar þessi lög voru samþykkt.

Aðdragandinn var sá að ákveðið var að ráðast í breytingar á lögum um Stjórnarráðið mjög seint á kjörtímabilinu. Fékk það mál mikla umræðu á sínum tíma og var stjórnarandstöðu sökuð um málþóf, sem óþarft er að rifja upp því að ekki var um málþóf að ræða. Á síðustu stigum málsins var það krafa nokkurra þingmanna að gerðar skyldu breytingar á 7. gr. laganna um að allir fundir ríkisstjórnarinnar ættu að hljóðritast, að afrit af þeim hljóðritunum skyldu vera geymd í vörslu Þjóðskjalasafnsins og skyldu hljóðritanirnar gerðar opinberar að 30 árum liðnum. Ríkisstjórnin lét það eftir þessum þingmönnum vegna þess að hún stóð frammi fyrir því að ellegar væri hún fallin. Dramatískur fundur var haldinn í allsherjarnefnd þar sem meiri hlutinn féll þegar taka átti málið út vegna þess að hv. þm. Þór Saari og hv. þm. Þráinn Bertelsson settu sig á móti því nema þessi lagagrein færi inn í lögin. Þá voru góð ráð dýr og endaði með því að þetta ákvæði fór inn í lagabálkinn og hefur verið vandræðagangur með það síðan.

Sett var inn frestunarákvæði á lagagreinina vegna þess að samkvæmt lögunum og fyrirliggjandi frumvarpi um Stjórnarráðið í þessari umræðu áttu lögin að taka strax gildi, en farin var sú leið að hljóðritunarákvæðið skyldi taka gildi síðar, mig minnir að það hafi átt að taka gildi 1. janúar á þessu ári. Þegar sú dagsetning nálgaðist bar ríkisstjórnin því við að ekki væri hægt að verða við því vegna þess að ekki væri til tækjabúnaður í Stjórnarráðinu til að taka upp ríkisstjórnarfundi á þeim tæknitímum sem við lifum nú þar sem meira að segja er hægt að taka upp samtöl með einföldum, ódýrum símum.

Málið kom því aftur fyrir þingið. Ég hef oft nefnt það. Mér finnst eins og þingmenn séu alltaf að spóla í sömu hjólförunum og að sömu málin komi aftur og aftur í þingið. Okkur verður ekkert ágengt með þau brýnu mál sem við þurfum að tala um, þ.e. atvinnusköpun og að hjálpa heimilunum. Þá var brugðið á það ráð að setja inn frestunarákvæði á lagagreinina og skyldi sú lagagrein taka gildi 1. nóvember, sem er ekki svo langt undan.

Í millitíðinni voru fengnir sérfræðingar til að fara yfir álitamálin sem sneru að þessu máli. Þeir komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og mæltust til þess að hljóðritunarákvæðið mundi ekki taka gildi. Ég hef alltaf haft efasemdir gagnvart þessu hljóðritunarákvæði og hef haldið hér ræður um það þegar þessi mál hafa verið til umræðu vegna þess að mér finnst að ríkisstjórn eigi að geta starfað fyrir luktum dyrum án þess að þar sé einhver sem taki fundina upp eða skrifi allt í fundargerð, við erum jú að tala um æðstu stjórn ríkis. Ég hef varað mjög við því að ákvæðið tæki gildi meðal annars vegna þess að ef það væri í gildi mundu ríkisstjórnarfundirnir bara færast á annan stað, út fyrir veggi Stjórnarráðsins. Ekki viljum við að ríkisstjórn Íslands, hver sem hún er á hverjum tíma, fari að stunda Öskjuhlíðarvinnubrögð.

Nú hefur verið brugðið á það ráð að koma með nokkurs konar gervitillögu til að mæta kröfu þeirra þingmanna sem gerðu þá kröfu að hljóðritunarákvæðið færi inn í lög um Stjórnarráðið, að þessir fundir skyldu hljóðritaðir. Sú tillaga liggur fyrir. Í stuttu máli má segja að meiri hlutinn er að reyna að opna á þetta ákvæði með því að koma með breytingartillögur varðandi minnisblaðareglu, að dagskrá ríkisstjórnarfundar skuli gerð opinber að afloknum fundi. Kynna á með fjölmiðlum eða einhverjum hætti hvað tekið er fyrir á ríkisstjórnarfundum o.s.frv., en svo er ákvæðinu jafnframt lokað um leið, því að það kemur hér fram í þessum breytingartillögum frá ríkisstjórninni og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að forsætisráðherra getur á hverjum tíma fyrir sig hafnað því að birta þessar upplýsingar.

Hér stöndum við þingmenn því frammi fyrir því að ríkisstjórnin svíkur ákveðna aðila sem hétu ríkisstjórninni stuðningi með því að taka út hljóðritunarákvæðið úr lögunum. Hún reynir að opna á það með öðrum hætti en lokar því samt um leið.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar áðan er þetta líklega að verða Íslandsmet í svikum ríkisstjórna, bæði við landsmenn sína og þingmenn landsins. Ég undrast mjög þingmenn Hreyfingarinnar, hvað þeir hafa mikið langlundargeð gagnvart þeim svikum sem ríkisstjórnin hefur orðið uppvís að varðandi stuðning þeirra við ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Það eru einhverjir aðrir hagsmunir sem keyra þetta mál áfram hjá þingmönnunum en sannfæringin sjálf (BirgJ: Endilega segðu okkur … það er …) vegna þess að það vita allir eftir (Gripið fram í.) fund sem haldinn var (Gripið fram í.) — Fyrirgefðu, forseti. (Forseti hringir.) Gæti ég fengið hljóð í þingsalinn? (Forseti hringir.) Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir biður mig um að upplýsa …

(Forseti (KLM): Ég bið þingmenn í sal að leyfa þeim ræðumanni sem er í ræðustól og hefur orðið að flytja sitt mál.)

Þakka þér fyrir, herra forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir biður mig um að upplýsa um það hvenær samningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina var gerður. Það var náttúrlega gert opinbert af þingmönnum Hreyfingarinnar. Þegar hinn svokallaði „milli jóla og áramóta fundur“ var haldinn á síðastliðnu ári var það staðfest (Gripið fram í.) og stigu þingmenn Hreyfingarinnar fram og sögðust ætla að styðja ríkisstjórnina (ÞSa: Frábært.) ef þeir fengju (Gripið fram í.) ákveðin mál … (ÞSa: … Það er helvítis bull … hjá hv. þingmanni í ræðustóli.) ákveðin mál … (Forseti hringir.) Virðulegi forseti.

(Forseti (KLM): Ég vil árétta það sem ég sagði hér áðan við þingmenn að …) (BirgJ: Það er bara ljótt að ljúga í ræðustól.)

(Forseti (KLM): Forseti getur gripið til þess ráðs að fresta fundi. En ég bið þingmenn úti í sal að virða þá reglu að sá sem er í ræðustól hefur orðið.)

Þakka þér fyrir, herra forseti, þetta snertir greinilega viðkvæma strengi hjá þingmönnum, en það er nú ágætt. Ég er einfaldlega að benda á að hér er verið að fjarlægja ákvæði um hljóðritanir af ríkisstjórnarfundum úr lögunum. En það verður þá bara að koma í ljós hvort þeir þingmenn sem ég minntist á greiða atkvæði með því að taka ákvæðið út eða hvort þeir vilja halda ákvæðinu inni. Ég veit að það er meginmarkmið ákveðinna þingmanna að halda því í lögunum.

Eins og ég fór yfir áðan hef ég alltaf verið á móti þessu ákvæði og hef lagt fram breytingartillögu um að ákvæðið tæki í fyrsta lagi ekki gildi í viðkomandi lagabálki og í öðru lagi, þegar það var komið inn í lögin, að það yrði fellt úr gildi. Og enn er ég með breytingartillögu í þá átt því að eins og ég fór yfir áðan erum við að fjalla um ríkisstjórn Íslands sem fjallar oft og tíðum um mjög viðkvæm almannahagsmunamál, þess vegna tel ég að ákvæðið eigi ekki að vera í lögunum.

Ég ætla að fara yfir nefndarálit mitt, virðulegi forseti, og þær breytingartillögur sem ég legg til.

Með nefndarálitinu fylgir ítarlegt fylgiskjal sem er álitsgerð Róberts Spanós sem unnin var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem rökstutt var að hljóðritunarákvæðið ætti ekki heima í lögunum og ef það ætti heima í lögunum þyrfti að fara af stað mikil vinna til að breyta öðrum lögum til að koma í veg fyrir að breytingin mundi ná fram að ganga. Ég hef aldrei orðið vör við það áður í lagasetningu eða lesið um það nokkurs staðar í lögum að bráðabirgðaákvæði í öðrum lögum leiði það af sér að hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum verði óheimilar nái frumvarpið ekki í gegn. Það er svo einkennilegt að fyrir þinginu liggur frumvarp til upplýsingalaga. Í banngrein frumvarpsins er lagt til að almenningur komist ekki í hljóðritanir af ríkisstjórnarfundum. Hér er ríkisstjórnin að tryggja það í tveimur frumvörpum að þetta nái ekki fram að ganga og hef ég bara aldrei nokkurn tímann séð slíkt öryggisákvæði sett inn í frumvörp sem eru til umfjöllunar í þinginu á sama tíma. Hér er ríkisstjórnin því að tvítryggja sig fyrir því að ákvæðið nái ekki fram að ganga og þykir mér það afar merkilegt.

Segjum sem svo að tillaga ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga í dag en þá þarf enn á ný að fara fram vinna varðandi frumvarp til upplýsingalaga til að gera breytingar á frumvarpinu um að hljóðritanir ríkisstjórnarfunda verði felldar niður. Það eru einkennileg vinnubrögð, en þau eru einkennandi fyrir þau handarbaksvinnubrögð sem þessi ríkisstjórn hefur. Þingið er sífellt að fá sömu málin til afgreiðslu og hér er sífellt verið að gera lagabætur á lögum sem eru nýsamþykkt. Það er náttúrlega ólíðandi og minnir okkur á að það er aldrei brýnna en nú að koma á stofn lagaskrifstofu Alþingis þannig að svona misskilningur og spuni sé keyrður í gegn við lagasetningu. Það er ekkert annað en spuni þegar verið er að draga þingmenn á því að einhver ákvæði og áherslumál þeirra komi fram í lögum, en svo er það bara fellt í burtu og skreytt með einhverjum hætti.

Þá að nefndarálitinu og þeirri breytingartillögu sem ég legg fram nú, eins og ég gerði við síðustu umræðu um málið þegar frestunarákvæðið var sett inn í frumvarpið. Hefst nú lesturinn, með leyfi forseta:

„Nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands (skrifleg framlagning mála á ríkisstjórnarfundum). Frá minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Með frumvarpinu er lagt til að hætt verði við hljóðritun ríkisstjórnarfunda og opinberun þeirra hljóðritana að 30 árum liðnum frá fundi. Ákvæðið átti fyrst að koma til framkvæmda 1. janúar 2012 en var síðan frestað til 1. nóvember 2012.

Ákvæðið um hljóðritun kom inn í frumvarpið við meðferð málsins í allsherjarnefnd og var undirbúningur fyrir þessa grundvallarbreytingu enginn hjá nefndinni. Fjölmargar ábendingar bárust nefndinni um ómöguleika þessa og var gildistöku því frestað svo að unnt væri að undirbúa breytinguna. Minni hlutinn taldi að ákvæðið ætti þá þegar að falla brott og lagði það til við meðferð málsins. Með vísan til álitsgerðar Róberts Spanós lögfræðings benti minni hlutinn á að ekki væri hald í ákvæðinu um að opinberun þessara hljóðritana yrði ekki fyrr en að 30 árum liðnum þar sem m.a. næstu ríkisstjórnir á eftir gætu sem vörsluaðili hlustað á upptökur af fundum fyrri ríkisstjórna.

Minni hlutinn hefur ítrekað varað við því að við gildistöku þessa ákvæðis mundi stjórn ríkisins færast annað, þ.e. þær ákvarðanir sem skipta máli og varða almannahag og almannahagsmuni verði ekki lengur teknar í Stjórnarráðinu heldur færast annað, og telur það slæma þróun. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að innan ríkisstjórnar sé unnt að ræða mál og útkljá þau án þess að hægt sé að komast í slíkar upplýsingar.

Minni hlutinn bendir enn á mikilvægi þess að lagasetning sé vönduð og að undirbúningur hennar sé byggður á traustum grunni og ígrunduðum ákvörðunum.

Minni hlutinn leggur til þær breytingar á frumvarpinu að ákvæðið um hljóðupptökur ríkisstjórnarfunda falli brott og frestun gildistöku þess ákvæðis og telur ekki þörf á að lögfesta reglur um skriflega framlagningu mála á ríkisstjórnarfundum enda hefð fyrir því vinnulagi.“

Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Ég legg til að 1. gr. falli brott. Það varðar það að öllum málum sem ráðherra ber upp í ríkisstjórn skuli fylgja sérstakt minnisblað ráðherra til ríkisstjórnarinnar þar sem meginatriði málsins eru rakin og helstu sjónarmið sem liggja að baki og sé óskað eftir samþykki ríkisstjórnar skal setja fram skýrt orðaða tillögu. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt með samþykki forsætisráðherra að víkja frá skyldu til að leggja mál fram skriflega.

Þarna er það lokunarákvæði sem ég fór fram með áðan. Ég tel að þessi frumvarpsgrein eigi að falla brott.

Í öðru lagi legg ég til að 4. mgr. 7. gr. laganna falli brott, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Allir fundir ríkisstjórnarinnar skulu hljóðritaðir og afrit geymt í vörslu Þjóðskjalasafns“, með þeim rökum sem ég hef farið hér yfir, virðulegi forseti.

Svo legg ég til að aðrar greinar frumvarpsins falli brott því að ég tel að hér sé um mikla sýndarmennsku að ræða og að meiri hlutinn sé að reyna að bjarga sér fyrir horn með það að koma til móts við kröfu ákveðinna þingmanna.

Það er líka athyglisvert að hér fór fram umræða um málið fyrr í vikunni. Þar krafðist hv. þm. Þráinn Bertelsson þess að allsherjar- og menntamálanefnd mundi geta skilað inn umsögn um málið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég fór þá í atkvæðaskýringu og taldi að það ætti ekki heima í þessu máli vegna þess að málið væri í höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. En nú hefur allsherjar- og menntamálanefnd kveðið upp úr um það að hún hafi einfaldlega ekki tíma til að skila áliti, enda er málið keyrt áfram af miklu offorsi eins og oft vill verða og af miklum hraða vegna þess að stundarglas ríkisstjórnarinnar er að renna út í þessu máli. Hér verða ekki þingfundir í næstu viku því að það eru nefndarfundir hjá þinginu. Ef þetta verður ekki samþykkt í dag eða á morgun tekur hljóðritunarákvæðið gildi 1. nóvember.

Það er því skrýtin staða sem málið er í, virðulegi forseti, í fyrsta lagi að hafi ekki verið meiri fyrirvari á því í þinginu þannig að hægt væri að afgreiða það með vönduðum hætti nú þegar komnar eru inn breytingartillögur við málið. Hv. þm. Þór Saari hefur boðað breytingartillögur sem hann fer yfir á eftir. Þær eiga að fara hér í gegn umræðulaust og ekki á, samkvæmt formanni nefndarinnar, að boða til fundar í nefndinni á milli 2. og 3. umr.

Komnar eru fram breytingartillögur sem ekki hljóta faglega meðferð í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það minnir okkur á hvernig málið er til komið og að það fékk mjög óvandaða umfjöllun hjá nefndum þingsins. Breytingartillaga um hljóðritanir ríkisstjórnarfunda, sem nú er lagt til að verði felldar úr lögunum, kom inn á milli 2. og 3. umr. við vinnslu málsins um Stjórnarráð Íslands. Henni var einhvern veginn kastað inn í frumvarpið og síðan varð það að lögum umræðulaust. Þetta eru eftirköstin, herra forseti. Hér stöndum við í annað sinn og ræðum þetta hljóðritunarmál í þessum lögum. Væri ekki tíma þingsins betur varið í eitthvað annað eins og til dæmis það að ræða rammaáætlun, uppbyggingu atvinnulífsins, skuldastöðu heimilanna og annað það sem brennur virkilega á landsmönnum, í stað þess að standa í þessari vitleysu?