141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við erum að ræða hér mál sem er orðið ansi gamalt. Það kom fyrst fram árið 2010, þá sem frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands samhliða frumvarpi til upplýsingalaga. Þau frumvörp voru um margt mjög sérstök. Meiningin með þeim var að gera gagngerar breytingar á ýmsum starfsháttum stjórnsýslunnar í samræmi við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrsluna sem hét Samhent stjórnsýsla og svo sérstaka skýrslu sem er afrakstur nefndar sem forsætisráðherra skipaði um úrbætur á stjórnsýslunni. Þegar þau frumvörp voru hins vegar lesin var ljóst að þau voru að stórum hluta til skrifuð til þess að komast í kringum niðurstöður þessara skýrslna. Það var ekki fyrr en menn fóru að reka augun í það og rekja þau mál í þaula að það kom í ljós að þessi frumvörp voru að stórum hluta til ónýt eins og þau komu inn í þingið. Þáverandi formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, vann þrekvirki í því að breyta þeim frumvörpum báðum, bæði frumvarpinu um Stjórnarráðið og frumvarpinu um upplýsingalögin. Hins vegar hefur enn ekki tekist að afgreiða upplýsingalögin í þinginu. Þau eru núna aftur komin til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það segir sitt um hvaða breytingar hefur þurft að gera á þeim.

Þegar ég rakti feril þessara tillagna og samlas frumvörpin með tillögum þessara skýrslugjafa á sínum tíma var mér verulega við brugðið, að starfsmenn Stjórnarráðsins og starfsmenn forsætisráðuneytisins skyldu beinlínis viljandi leggja hér fram frumvörp sem eru skrifuð til þess að komast fram hjá niðurstöðum þessara merkilegu skýrslna. Það var alveg ótrúlegt að verða vitni að því, en sem betur fer tókst að koma að mörgum mjög mikilvægum breytingum, þá ekki síst hvað varðar upplýsingalögin. Þess ber að geta að hæstv. forsætisráðherra sjálfur var sammála þeim breytingum þannig að þessi frumvörp sem komu frá forsætisráðuneytinu voru skrifuð í kringum tilmæli þessara skýrslna, en greinilega ekki í öllum tilfellum með samþykki sjálfs forsætisráðherra. Þetta voru mjög einkennilegir snúningar á þessum málum frá upphafi.

Ég mun leggja fram breytingartillögu við tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þ.e. nokkurra þingmanna hennar, en sú tillaga hljóðar upp á að fellt verði úr gildi hljóðritunarákvæði svokallað sem var sett inn í frumvarpið á sínum tíma í meðferð allsherjarnefndar vegna þrákelkni stjórnarmeirihlutans gegn því að fundargerðir ríkisstjórna yrðu ritaðar með skipulegum hætti þannig að hægt væri að rekja ákvarðnatöku. Stjórnarmeirihlutinn þá var alfarið á móti því að hægt væri að rekja ákvarðanatöku á ríkisstjórnarfundum. Vegna þessa kom fram breytingartillaga um hljóðritanir ríkisstjórnarfunda sem yrðu geymdar í 30 ár og það náðist samkomulag um það mál. Nú er hins vegar verið að ganga á bak því samkomulagi og menn bera fyrir sig samtals 36 blaðsíðum af einhvers konar rökstuðningi frá tveimur háskólakennurum um það hvað allt sé ómögulegt við það að ríkisstjórnarfundir séu hljóðritaðir. Helstu rökin þar virðast vera þau að þetta sé ekki gert annars staðar. Það er nú svo með flest mál að þau eru ekki öll gerð alls staðar annars staðar en gerast samt. Það er því ekkert við það að athuga.

Vegna þessa alls stöndum við hér enn þann dag í dag, 25. október 2012, tveimur árum síðar, með breytingartillögu þingmanna stjórnarmeirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem að ýmsu leyti er til bóta en versti ágallinn á henni er þó sá að það á að fella út hljóðritunarákvæðið. Ég mun því í staðinn leggja til að inn í 7. gr. laganna bætist ákvæði um ítarlegri ritun fundargerða. Breytingartillagan við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands (skrifleg framlagning mála á ríkisstjórnarfundum) hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Við 2. gr. bætist nýr stafliður er verði a-liður og orðist svo: Í stað orðanna „og bókuð afstaða samkvæmt sérstakri ósk ráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Haga skal fundargerð með þeim hætti að í ljós sé leitt hverjir hafa með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt stuðlað að hverju því sem tekið er fyrir á ríkisstjórnarfundi. Bókuð sé afstaða hvers ráðherra til mála.“

Þetta er tillaga sem ég lagði til á sínum tíma í allsherjarnefnd að yrði með en hún var ekki tekin gild og því var hljóðritunarákvæðið sett inn í staðinn.

Mótbárum fólks um það að ríkisstjórnarfundir færist annað — slíkar ræður hef ég heyrt frá þingmönnum stjórnarliðsins, ekki síður en þeim sem voru í síðustu ríkisstjórnum — hafna ég alfarið og vísa á dyr. Hvers konar hugsun er það eiginlega í íslenskri stjórnsýslu og íslenskum stjórnmálum í dag, fjórum árum eftir hrun og eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að þingmenn skuli koma í ræðustól þingsins og segja: Það er ekki hægt að bæta stjórnsýsluna á Íslandi því hún færist bara eitthvað annað inn í lokuð bakherbergi. Þetta er ömurlegur hugsunarháttur einhverra risaeðlna sem eru búnar að braska með stjórnsýslu landsins árum og áratugum saman og neita einfaldlega að breyta um vinnuaðferðir. Það er ömurlegt að þurfa að hlusta á þetta. Þetta kom meðal annars fram í ræðu síðasta ræðumanns sem er nú ekki þess virði að hafa mörg orð um, hvorki hana sjálfa né ræðuna hennar, en (Gripið fram í.) þetta er hugarfar (Gripið fram í.) sem á ekki heima í sölum Alþingis, að Alþingi geti ekki vænst þess að fá upplýsingar af ríkisstjórnarfundum af því ríkisstjórnarfundir eru þess eðlis að þeir hagi sér bara eins og þeim sýnist, að þeir muni upplýsa um það sem þeim sýnist og muni bara færast eitthvað annað ef það verða sett lög í landinu um að fólk vilji fá að vita hvað gerist á þessum fundum. Þetta er hugsun sem við þurfum að losa okkur við á Íslandi.

Breytingartillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarmanna í þeim málum gengur ekki nógu langt. Þess vegna legg ég fram þessa breytingartillögu. Hún er samhljóða því sem kemur fram í XII. kafla í frumvarpi til laga um Stjórnarráð Íslands sem lagt var fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta, í tölulið 8:

„Nefndin telur að verulega skorti á að starfshættir innan ríkisstjórnar, ráðuneyta og stofnana uppfylli nútímakröfur um formlega og opna stjórnsýslu.“

Í tölulið 9: „Fundargerðir ríkisstjórnar verði skráðar með skýrum hætti og þær birtar opinberlega. Samhliða fundargerðabók ríkisstjórnarfunda verði haldin sérstök trúnaðarmálabók sem notuð sé þegar rætt er um viðkvæm málefni ríkisins eða önnur mál sem lúta trúnaði.“

Í tölulið 7 í XI. kafla segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi reglna sem gilda um ábyrgð ráðherra á stjórnarmálefnum, bendir nefndin á að máli geti skipt að haga ritun fundargerða með þeim hætti að í ljós sé leitt hverjir hafa með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt stuðlað að hverri þeirri athöfn sem tekin er fyrir á ráðherrafundi.“

Þetta er nánast orðrétt sama orðalag og er í breytingartillögu þess er hér stendur.

Svo segir í tölulið 8 í XI. kafla:

„Að því marki sem samráð og fundir milli oddvita ríkisstjórnar koma í reynd í stað þess að fjallað sé um mál á fundum ríkisstjórnar kann að vera rétt að huga að því að setja reglur um skráningu þess sem fram fer við slíkt samráð.“

Það er sem sagt verið að taka með beinum hætti á þessum vandamálum í bæði skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar sem var samþykkt hér 63:0. Síðan þá hafa þessar tillögur ekki átt velgengni að fagna meðal stjórnarliða. Eins og ég hef bent á finnst mér það dapurlegt og mér óskiljanlegt að afstaða þeirra skuli vera svona.

Vissulega hefur þetta frumvarp tekið breytingum til batnaðar og vissulega gera breytingartillögur meiri hluta nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd enn eina tilraun til að betrumbæta málið, en þær ganga samt ekki enn þá nægilega langt vegna þess að þegar upp er staðið verður ekki hægt að rekja með hvaða hætti ákvarðanataka á ríkisstjórnarfundum fer fram. (Gripið fram í: Jú.) Það verður ekki hægt að gera það og það er afleit staða að vera í með stjórnskipun Íslands núna, fjórum árum eftir hrun.

Ég skora því á, og mun gera á eftir við atkvæðagreiðsluna, þá þingmenn sem hér eru í salnum að tryggja það að tillögum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar verði fylgt eftir og breytingartillaga mín verði samþykkt.