141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að halda um þetta langa ræðu enda hefur komið fram að mestu það sem ég hefði viljað láta koma fram, það kom fram í ræðum hv. þingmanna Þórs Saaris og Þráins Bertelssonar.

Mig langar bara að minna á að rekjanleg ákvarðanataka skiptir höfuðmáli á æðsta stjórnstigi. Það er í beinu samhengi við þann lærdóm sem okkur var falið að draga af mistökum í aðdraganda hrunsins. Gleymum því ekki að rekjanleg ákvarðanataka er rekjanleg ábyrgð. Með því að falla frá því að halda til dæmis trúnaðarbók er verið að fara gegn vilja þingsins sem einróma samþykkti þingsályktunartillögu í tengslum við skýrslu þingmannanefndarinnar, þar sem meðal annars voru fyrirmæli um að halda trúnaðarbók hjá ríkisstjórn. Mér finnst það aðallega sorglegt hvað okkur gengur illa, og sérstaklega ríkisstjórninni, að verða við þeim fyrirmælum sem voru sett fram og samþykkt hér einróma á Alþingi um gagnsæi í stjórnsýslunni.

Ég vil leggja til að orðið verði við þeirri breytingartillögu sem hv. þm. Þór Saari lagði fram. Það gerir þetta mál aðeins skárra. Að sjálfsögðu er hægt að „fiffa“ með hljóðupptökur. Ef einlægur brotavilji er hjá fólki, ef það vill hylja slóð sína er alltaf hægt að gera það, hvort sem það eru hljóðupptökur eða skriflegar fundargerðir. En aðalatriðið er að við þurfum að koma með mjög skýran ramma og skýr skilaboð um að tími leyndarhyggju og baktjaldamakks — og að ekki sé hægt að fá að vita hver bókar hvað á ríkisstjórnarfundum — verður að vera liðinn. Við verðum að læra af hruninu og þeim ákvörðunum sem við tókum hér saman, þingmenn, 63:0. Við tókum ákvarðanir saman.

Eitt af því sem svo mikið er talað um og flíkað á tyllidögum er gagnsæi. Við viljum að sjálfsögðu að hægt sé að rekja ákvarðanatökur og bókanir á ríkisstjórnarfundum. Það er bara sjálfsagt mál.