141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:35]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði til viðbótar sem ég vildi koma að varðandi þetta mál. Ég vil byrja á því að fagna orðum síðasta ræðumanns, hv. þm. Ólafar Nordal um skýrslu þingmannanefndarinnar og að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé enn þá að vinna með þingsályktunartillöguna sem Alþingi samþykkti 63:0. Vissulega er það gott mál en í frumvarpinu um Stjórnarráð Íslands, sem er heildarumgjörðin um það sem við vorum að ræða í gær, kemur skýrt fram að þar er meðal annars byggt á tillögum þingmannanefndarinnar. Ef þingmenn hefðu viljað taka tillit til þingsályktunartillögunnar og skýrslu þingmannanefndarinnar hefði þeim verið í lófa lagið að gera það við endurbætur á frumvarpinu um Stjórnarráðið. Það var gert að hluta, en sá hluti sem við ræðum í dag hefur verið undanskilinn. Það þarf að taka tillit til þessara mála á réttum stað í ferlinu, það dugar ekki að segja: Við ætlum að taka tillit til niðurstöðu þingmannanefndarinnar eftir því sem okkur hentar árið X.

Mig langar að nefna vinnubrögðin á Alþingi í þessu máli. Ég hef farið yfir það áður, en við höfum eytt ómældum tíma í frumvarp til laga um breytingar á Stjórnarráði Íslands og í frumvarp um upplýsingalögin og þau eru ekki enn þá orðin að lögum. Það er komið á þriðja ár síðan þau voru lögð fram fyrst. Þetta hefur að hluta til að gera með vinnubrögð Alþingis og skipulagið á vinnu Alþingis [Kliður í þingsal.] — herra forseti, er hægt að loka fram? — og þá stöðu sem við þingmenn stöndum frammi fyrir á hverjum einasta degi. Ég kem heim til mín að loknum vinnudegi um sex- eða sjöleytið. Það er ekki fyrr en um kl. átta að ég fæ að vita hvað er á dagskrá á morgun í þinginu. Að svona vinnubrögð skuli líðast á löggjafarþingi er auðvitað forkastanlegt, en það eru samt svolítið dæmigert fyrir Alþingi Íslendinga að það eina sem maður veit fyrir vissu að muni gerast í næstu viku er hvað verður á matseðli vikunnar fyrir þingið. Matseðlinum er dreift á sunnudegi en dagskrá um þá löggjöf sem á að ræða er ekki dreift fyrr en örfáum klukkutímum áður en hún hefst. Þetta er hlálegt, en svona er forgangsröðunin á Alþingi Íslendinga. Þið megið fá að vita hvað verður í matinn á fimmtudaginn en þið fáið ekki að vita hvaða lög við ætlum að ræða á morgun.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spurði okkur þingmenn Hreyfingarinnar á sínum tíma um störf þingsins og vissu að við vorum ný á þinginu og gætum ef til vill svarað þessu betur en aðrir. Þeir sögðu sem svo: Við ræðum við þjóðþing út um allan heim og embættismenn hjá stofnunum úti um allan heim. (Gripið fram í.) — Hæstv. utanríkisráðherra, sittu nú kyrr og hlustaðu á það sem ég er að segja. Þeir sögðu: Við höfum aldrei komið í þjóðþing nokkurs staðar sem hefur svona mikið að gera eins og Alþingi Íslendinga. Þeir voru alveg hissa. Þeir spurðu: Hvað eruð þið alltaf að gera? Hvers vegna er svona mikið að gera hjá íslenskum þingmönnum og Alþingi Íslendinga?

Við veltum þessu svolítið fyrir okkur og fórum yfir dagskrá þingsins og spáðum í það hvað við þingmenn værum að fara að gera á eftir, hvað gerðum við í gær eða í síðustu viku. Hvað var á dagskránni? Við fórum til dæmis þrisvar sinnum í gegnum þingið með Icesave. Við erum dag eftir dag að endurbæta eldri lög sem eru gölluð eða draga mál aftur og aftur inn í þingið af því að menn voru ekki alveg sáttir við þau. Ósættið í þinginu gerir þetta að verkum. Þingið er alltaf að elta skottið á sjálfu sér í löggjöfinni. Það mál sem er á dagskrá í dag er klassískt dæmi um þetta. (Gripið fram í.) Við erum enn þá að ræða frumvarp um Stjórnarráð Íslands sem kom fram árið 2010. Þetta er náttúrlega bara asnalegt að svona þurfi þetta að vera en þessu megum við búast við. Þetta stafar annars vegar af því að löggjöfin er gölluð en hins vegar af því að náð er samkomulagi um ákveðin mál, eins og gert var í þessu tilfelli í allsherjarnefnd á sínum tíma. Í nefndinni var náð samkomulagi um að inn færi ákvæði um hljóðritanir ríkisstjórnarfunda sem yrðu geymdar í 30 ár, það var gert til að koma málinu úr nefnd, inn í þingsal og í samþykkt. Ákvæði um hljóðritanir kom inn vegna þess að stjórnarmeirihlutinn vildi ekki að fundargerðir ríkisstjórnarinnar yrðu ritaðar þannig að hægt yrði að rekja hver tæki hvaða ákvörðun. Þess vegna kom hljóðritunarákvæðið inn.

Eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson benti á áðan vorum við tekin á pólitískum ippon. Forsætisráðherra í broddi fylkingar frestar málinu, breytir því, fær 36 blaðsíðna skýrslu til að segja að ekki sé hægt að gera þetta svona og úr verður þessi umræða í dag. Hún er þinginu til vansa vegna þess að svona á Alþingi ekki að vinna. Þetta kemur mér hins vegar ekkert á óvart, þótt mér leiðist þessi staða. Ég hef aldrei unnið á vinnustað nokkurn tíma á ævinni, og hef ég þó unnið á nokkrum stöðum og er með sæmilegan starfsaldur, þar sem fyrirbæri eins og óheilindi og óheiðarleiki eru — ég segi ekki reglan fremur en undantekningin — ófrávíkjanlegur hluti af hverjum einasta starfsdegi. Og pólitísk brögð þar sem menn ná samkomulagi einn daginn, klappa hverjir öðrum á bakið og taka í höndina á þeim og stinga þá svo með rýtingi í bakið daginn eftir — þau eru bara daglegt brauð. Ég segi það kannski ekki, en því miður finnst mönnum eðlilegt að þessi vinnubrögð séu viðhöfð og þess vegna erum við að ræða þetta mál í dag. Það er farið aftan að þeim sem beittu sér fyrir samkomulagi til að ná sátt um málið. Þeir sem gera það verða að eiga það við sjálfa sig þegar þar að kemur.

Það síðasta sem ég mundi vilja nefna er að hv. þingmenn Illugi Gunnarsson og Ólöf Nordal komu í ræðustól áðan og ræddu um að ekkert þýddi að hljóðrita ríkisstjórnarfundi eða skrá þá niður vegna þess að þá mundi ákvarðanatakan færast eitthvert annað. Það er einmitt það sem gerðist í aðdraganda hrunsins. Þá voru haldnir fundir sem ekki var upplýst um hvað fór fram á og eins og kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var illrekjanlegt hverjir tóku ábyrgð á hverju og hvar.

Við í Hreyfingunni höfum þrisvar sinnum lagt fram þingsályktunartillögu um að þessi samskipti forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins við Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið verði rannsökuð af rannsóknarnefnd vegna þess að það er í þeim samskiptum sem stór hluti af hruninu liggur; hverjir tóku ákvarðanir um hvað og hvenær og hvers vegna. Sú tillaga hefur verið lögð fram í þriðja sinn en hún hefur enn ekki fengið afgreiðslu, að hluta til vegna þess að hún er þingmannamál og þau njóta ekki forgangs. En þetta er eitt af þeim málum sem er grundvallaratriði að verði afgreitt og verði upplýst um ef menn ætla sér einhvern tíma að geta sagt að við höfum gert upp hrunið eins vel og við mögulega gátum. Þangað til þessi rannsókn fer fram sitjum við einfaldlega uppi með það að vita ekkert hvað gerðist í Seðlabankanum, við vitum ekkert hvað gerðist í fjármálaráðuneytinu, í forsætisráðuneytinu, í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu eða Fjármálaeftirlitinu því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis tekur ekki nema mjög lítillega á þessum afmörkuðu þáttum. Hún er miklu ítarlegri um fleiri aðra þætti. Sú þingsályktunartillaga tengist þessu máli líka.

Í ljósi þess framhalds sem við erum vitni að í dag þar sem reyna á að halda áfram með ríkisstjórnarfundi sem ekki má upplýsa um, býst ég svo sem ekki við því að tillaga okkar fái mikinn framgang. Við búum enn þá í hrunumhverfi á þinginu. Það er fjöldi hrunverja á þingi og ég leyfi mér að kalla þá eftirhrunverja sem streitast við að halda í gamlar hefðir og upplýsa ekki um mál. Vonandi verður breyting á því í næstu kosningum. Það gerist ekki nema almenningur krefjist þess og greiði einhverjum öðrum atkvæði en þeim sem haga sér svona. Það styttist í kosningar og það er vel.