141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[14:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það hryggir mig að við skulum enn þá vera á þeim stað að það þyki sjálfsagt mál að svíkja og pretta hér á þessu löggjafarþingi. Það hryggir mig að sjá að við ætlum ekki að verða við því sem þingmannanefnd um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis lagði til og við samþykktum öll 63:0. Það er meðal annars verið að fella út trúnaðarbókina sem mjög skýr fyrirmæli voru um í þeirri þingsályktun sem allir hér samþykktu. Það hryggir mig að við viljum hvorki hafa rekjanleika á ábyrgð og ákvörðunartöku hjá ríkisstjórn né að fá að vita hver bókar hvað. Ætlum við ekki neitt að læra?