141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[14:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég styð auðvitað það verklag hjá hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að við munum hafa tækifæri til þess að ræða hina nýju skýrslu fyrr í þingsal. Ég held reyndar líka að það hafi verið ágætisbreyting á verklagi að nefndin fjalli fyrst ítarlega um skýrsluna. Mér finnst það ágætt svo lengi sem við missum ekki af samtalinu milli þingmanna í þingsal. Ég held að það sé jákvætt að nefndin sé í nánu sambandi við umboðsmann. Ég hef velt því fyrir mér og langar að fá fram hugleiðingar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um eftirfarandi: Getum við í starfi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar — sem við erum að móta, við erum líka að móta eftirlitshlutverk okkar á svo margan hátt — lagt fram breytingar að okkar eigin frumkvæði, eða að menn komi með ábendingar, og um leið haft í huga þær ábendingar sem fram koma hjá umboðsmanni á hverjum tíma? Það á ekki síst við um almennt verklag og eins þegar gera þarf breytingar og laga þarf lög vegna þess að þau ná ekki markmiðum sínum, ég tala nú ekki um þegar þau brjóta á réttindum borgaranna.