141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[14:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir mjög ítarlega og góða yfirferð yfir vinnu nefndarinnar við skýrslu umboðsmanns Alþingis sem hér liggur fyrir og er, eins og fram hefur komið, fyrir árið 2010.

Sem betur fer ríkir ekki lengur í landinu sú lotning sem var landlæg fyrir stjórnvöldum, eða fyrir yfirvaldinu eins og það hét hér á öldum áður. Menn setja spurningarmerki við aðgerðir stjórnvalda. Það verður að viðurkennast að eftir hrunið minnkaði virðing og traust á flestum, ef ekki öllum opinberum stofnunum verulega sem eðlilegt var miðað við þau áföll sem yfir þjóðina gengu. Virðing og traust er ekki sjálfgefið hjá opinberum stofnunum og eftir hrunið er ljóst að opinberar stofnanir og stjórnvöld þurfa að leggja sig fram um að ávinna sér að nýju traust og virðingu í samfélaginu. Það verður einna best gert með því að stjórnvöld séu vakandi fyrir aðfinnslum og ábendingum sem berast frá umboðsmanni Alþingis og fari eftir þeim leiðbeiningum sem þar er að finna.

Það er mjög mikilvægt að fjalla um skýrslur og athugasemdir umboðsmanns Alþingis opinberlega. Á undanförnum árum hefur verið fjallað um skýrslurnar á opnum fundum. Þeim hefur verið sjónvarpað og hægt er að fara inn á vefinn og skoða hvar þar fór fram. Umfjöllun í þingsal hefur því miður farist fyrir í önnum undanfarinna ára. Eins og hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagði áðan er skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir 2011 nú komin í hús. Ég vil taka fram að það hefur ekki verið við umboðsmann að sakast, hann hefur skilað sínum skýrslum til þingsins. Nú er nýjasta skýrslan sem sagt komin og okkur er því ekkert að vanbúnaði að fara yfir hana, hitta umboðsmann strax í næstu viku, eins og hér hefur komið fram, og vonandi getum við tekið skýrsluna til umfjöllunar í þingsal fyrir áramót.

Ég velti því fyrir mér, miðað við þá reynslu að við höfum ekki gefið okkur tíma eða tóm í dagskrá þingsins undangengin ár til þess að fjalla um skýrslur umboðsmanns Alþingis, hvort nauðsynlegt sé að setja ákvæði þar um í þingsköp, að um þær skuli fjallað sérstaklega hér í þingsal. Ég verð samt að viðurkenna að ég veit ekki hvort það hefur verið til umfjöllunar í þingskapanefnd, en mér þætti þess virði að það yrði skoðað til að tryggja þessa umfjöllun í þingsal. Þetta eru miklar, ítarlegar og merkar heimildir yfir starf umboðsmanns Alþingis. En eins og ég sagði áðan eru skýrslurnar fyrst og fremst til þess að læra af, til að bæta opinbera stjórnsýslu, tryggja réttaröryggi borgaranna og bæta þjónustu við þá.

Eins og hér hefur komið fram hefur málafjöldi hjá umboðsmanni Alþingis aukist. Á milli áranna 2009 og 2010 jókst hann um 11,5%. Brugðist var við með því að bæta við fjárveitingu fyrir árið 2012, hygg ég, vegna þess að sýnt var að markmið um sex mánaða afgreiðslutíma mundi ekki nást.

Ég vek athygli á því að í heimsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til Noregs á dögunum sem hefur nokkrum sinnum borið á góma í þingsal — ég vil taka fram að það var mikil lærdómsreisa, við lærðum margt og mikið sem þangað fórum — komust nefndarmenn að raun um að málafjöldi hefur einnig aukist verulega hjá norska umboðsmanninum. Þar var brugðist við með þeim hætti að aðrir en umboðsmaður sjálfur geta fjallað um mál sem umboðsmaður hefur fjallað um eða eru samkynja málum sem umboðsmaður hefur fjallað um. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að nefnd sú sem hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nefndi og hefur nú lögin um umboðsmann til endurskoðunar skoði þau ákvæði sem eru í lögunum um norska umboðsmanninn til að kanna hvort rétt sé að fara sömu leið hér. Ég hygg að það gæti aukið skilvirkni og afgreiðsluhraða hjá embættinu ef þannig væri brugðist við.

Það er eðlilegt að málafjöldi aukist, eins og kom reyndar fram á fundi með umboðsmanni Alþingis og í skýrslunni. Það er í rauninni tvennt sem kemur til. Nú er rafrænn aðgangur, menn geta því sent inn kvartanir og ábendingar á auðveldari hátt en áður. Einnig eru menn einfaldlega betur vakandi fyrir réttindum sínum og þeir eru betur vakandi fyrir því að það er undir þeim sjálfum komið að tryggja þau og leita réttar síns. Leiðin í gegnum umboðsmann Alþingis hefur sýnt sig og sannað, ekki bara hér á landi heldur einnig erlendis. Svona í tilefni af því að nú fara þingmenn að tygja sig frá Alþingi til að sitja þing Norðurlandaráðs í Helsinki í næstu viku þá verður þar fjallað um tillögu sem hv. þm. Helgi Hjörvar er 1. flutningsmaður að og fjallar um stofnun norræns umboðsmanns, þ.e. umboðsmanns í þeim anda sem við þekkjum, sams konar embætti, sem ætti að taka fyrir kvartanir og ábendingar frá borgurunum í hinum norrænu löndum miðað við þann rétt sem þeir telja sig eiga í heimalandinu og við viljum hafa sem jafnastan innan Norðurlandanna. Þetta er ekki útfærð tillaga en hún er mjög spennandi. Það er spurning hvort umboðsmönnunum á Norðurlöndunum yrði falið þetta verkefni eða hvort sett yrði á stofn sérstakt embætti í löndunum öllum.

Herra forseti. Ég legg áherslu á eitt mál hér til viðbótar. Umboðsmaður bendir á að mikilvægt er að bæta málshraðann í stjórnsýslunni þegar kemur að kvörtunum og ábendingum vegna þess að tafir á einu stjórnsýslustigi geta orðið til þess að menn glati rétti eða missi hann á öðru stjórnsýslustigi. Þetta þarf auðvitað að passa upp á.

Annað sem er mér mjög hugleikið eru málsmeðferðarreglur í stjórnsýslulögum. Umboðsmaður vakti sérstaklega athygli á því fyrir nefndinni að málsmeðferðarreglurnar eru einungis lágmarksreglur. Við höfum því miður mýmörg dæmi um það að stjórnvöld telja sér ekki skylt eða þarft að ganga lengra í þjónustu við borgarana en þessar lágmarksreglur segja fyrir um. Þar með fer leiðbeiningarskyldan sem ég tel svo mikilvæga í hverri stjórnsýslueiningu, hún glatast og fer. Það er spurning hvort það þarf að herða á henni með einhverjum hætti eða hvort þetta er eins og margt annað spurning um hugarfarsbreytingu hjá stjórnvaldinu sem slíku.

Í Noregi komumst við að því að starfssvið umboðsmanns hefur verið útvíkkað frá því sem hér ríkir að einu leyti sem ég vil nefna að lokum og vitna enn og aftur til endurskoðunar laganna um umboðsmann. Frumkvæðismál umboðsmanns Alþingis geta verið vegna kvartana og lotið að grundvallarspurningum eða fjallað um mannréttindi, en einnig getur mál varðað yfirlýsingu stjórnvalda sem umboðsmaður telur nauðsynlegt að taka upp eða jafnvel leiðrétta. Starfssvið umboðsmanns norska Stórþingsins hefur einmitt verið víkkað að þessu leyti og sett inn sérstök ákvæði þar um í lög sem tryggir umboðsmanni þann rétt að gera athugasemdir við viðkomandi stjórnvald ef hann telur yfirlýsingar eða aðgerðir að þessu tagi ekki fullnægjandi eða nauðsyn að leiðrétta þær.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég vænti þess að við fáum fljótlega nýja skýrslu og þá munu eðlilega verða fjörugri umræður um hana. (Forseti hringir.) Það er alltaf þannig þegar maður lítur langt aftur í baksýnisspeglinum að þá eru málin ekki eins lifandi fyrir manni.