141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[14:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Því ber að fagna að umræða um skýrslur umboðsmanns Alþingis er komin á dagskrá, en því miður fylgir því skuggi vegna þess að Alþingi sjálft, virðulegi forseti, hefur að einhverju leyti brugðist og ekki farið samkvæmt lögum vegna þess að hér er verið að ræða skýrslur ársins 2007, 2008, 2009 og 2010. Það er hreint óskiljanlegt að skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir hvert ár skuli ekki vera fundinn staður í dagskrá þingsins vegna þess að það er bundið í lög að hún skuli rædd í þingsal.

Ég hef kallað mjög eftir umræðum um skýrslur umboðsmanns frá því ég settist á þing. Það er rétt, virðulegi forseti, að ég lesi upp úr minnihlutaáliti sem ég flutti í fyrra, 11. maí 2011, þegar til stóð að ræða skýrslur ársins 2007 og 2008. Ég var full bjartsýni á að það mundi takast, en því miður er nú komið langt fram í október 2012 og ekkert hefur gerst þar til nú að þetta er komið á dagskrá þingsins. Ég kallaði eftir því að skýrslan kæmist á dagskrá og yrði rædd í þinginu vegna þess að starfsemi Ríkisendurskoðunar hefur mjög verið gagnrýnd af þingmönnum síðustu vikur og það má segja að Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis séu hliðstæðar stofnanir. Báðar eru þær eftirlitsstofnanir Alþingis. Ríkisendurskoðandi fer með endurskoðun á fjárveitingavaldi og umboðsmaður Alþingis fer með eftirlit með því hvernig löggjöf sem Alþingi setur skilar sér í framkvæmd.

Það er svolítið einkennilegt að þeir hinir sömu þingmenn og gagnrýndu mest Ríkisendurskoðun og sérstaklega ríkisendurskoðanda skuli vera í forustu þeirrar nefndar sem átti og á að fjalla um skýrslur umboðsmanns Alþingis, en virðulegi forseti, batnandi fólki er best að lifa.

Þegar ég skilaði minnihlutaáliti í fyrra, sem er fylgiskjal með skýrslunni, fór ég yfir það að umboðsmaður hefur það hlutverk að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hann hefur með öðrum orðum mjög mikilvægt hlutverk, þess vegna er alvarlegt að Alþingi sinni því ekki að fjalla um skýrslur umboðsmanns.

Umboðsmaður skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður skal vera í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi. Umboðsmaður Alþingis er algjörlega sjálfstæður í störfum sínum eins og hin hliðstæða stofnun við umboðsmanninn, sem er Ríkisendurskoðun. Það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram að þessi tvö embætti taka ekki við fyrirmælum frá neinum í samfélaginu eða öðrum stofnunum.

Í minnihlutaáliti mínu fer ég yfir það að mér þyki mjög ámælisvert að skýrslurnar hafi ekki komið til umræðu. Ég gríp hér ofan í nefndarálitið, en þessi málefni voru á þeim tíma í allsherjarnefnd og bið ég þingmenn að taka tillit til þess. Hér segir, með leyfi forseta:

„Minni hluti allsherjarnefndar getur þó ekki verið á áliti meiri hluta nefndarinnar. Er ástæðan sú að umræður um skýrslur ársins 2007 og 2008 hafa ekki farið fram á þingfundi heldur einungis á fundum allsherjarnefndar. Er það afar ámælisvert af Alþingi, löggjafanum sjálfum, að fylgja ekki eftir ákvæðum laga. […] Að mati minni hluta allsherjarnefndar er það óafsakanlegt að skýrslur umboðsmanns Alþingis frá árunum 2007 og 2008 hafi ekki verið teknar formlega á dagskrá þingsins síðastliðin tvö ár. Ekki dugir að breiða yfir viljaleysi þetta með því að dreifa álitum allsherjarnefndar frá árunum 2007 og 2008 með áliti nefndarinnar fyrir árið 2009.“

Virðulegi forseti. Síðan þessi orð voru skrifuð hafa tvær skýrslur til viðbótar bæst við þær sem ekki hafa verið ræddar og skýrslurnar nú orðnar fjórar. Þarna var ég að reyna að sýna vilja minn sem þingmaður til að fá þessi mál á dagskrá.

Þetta leiðir hugann að því, virðulegi forseti, hversu nauðsynlegt er að við Alþingi Íslendinga verði starfrækt lagaskrifstofa með einhverjum hætti sem hafi það hlutverk að fara yfir frumvörp, drög að stjórnarskrá, lesa yfir reglugerðir og gæta þess í raun að ekki komi mál til þingsins nema þau standist þá línu sem lögð er við smíði frumvarpa. Þeirri lagaskrifstofu gæti einnig verið falið að hafa eftirlit og umsjón með því að þær skýrslur sem eiga að fá umræðu í þinginu samkvæmt lögum komi á dagskrá þingsins.

Það virðist nefnilega vera svo, þegar litið er til þessara mála, að forseti þingsins hafi í raun ekki yfirsýn yfir hvað það er sem þarf að ræða í þinginu. Það sýnir þessi stafli af óræddum skýrslum frá síðustu fjórum árum.

Umboðsmaður Alþingis hefur þegar skilað ársskýrslu 2011 og vonandi mun umræða um hana fara fram fljótlega eða fyrir jól svo að hægt sé að klippa á þennan hala og þingið losni úr þeim ógöngum sem það er komið í með skýrslur umboðsmanns Alþingis. Alþingi ber að sjálfsögðu að bera virðingu fyrir skýrslu umboðsmanns Alþingis og ber að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem kemur þar fram á löggjafann, því það er jú hlutverk umboðsmanns. Því miður virðist þetta hafa farið í handaskolum, en von mín er að úr þessu verði bætt.

Það er athyglisvert, virðulegi forseti, að á fundi sem allsherjarnefnd átti með umboðsmanni Alþingis um ársskýrsluna 2009 fór umboðsmaður yfir það hvað þyrfti að gera til að bæta lagasetningu. Þetta kemur fram á bls. 12 í þeirri skýrslu sem við ræðum hér. Á hverju ári er í skýrslu umboðsmanns kafli um meinbugi á lögum þar sem farið er yfir lagamistök sem Alþingi sjálft hefur gert á liðnum árum sem koma til kasta umboðsmanns. Það kemur hér fram í tengslum við slíka meinbugi á lögum að fjallað hafi verið um það hjá embættinu að styrkja þyrfti löggjafann þannig að þingið kæmi sér upp lagaskrifstofu.

Virðulegi forseti. Ég verð að minnast á að frá því að ég tók sæti sem þingmaður vorið 2009 hef ég á hverju þingi lagt fram tillögu um það nauðsynlega úrræði til að bæta lagasetningu að koma upp lagaskrifstofu við þingið. Það mál liggur enn þá óafgreitt í þinginu og er ekki vilji til þess hjá ríkisstjórnarflokkunum að taka það á dagskrá, því miður. Ég tel að slík skrifstofa sé það sem við þurfum á að halda núna eins og ég hef farið yfir.

Annað sem ég hef verið mjög gagnrýnin á hvað varðar lagasetningu frá því ég tók sæti á þingi eru þær ríku reglugerðarheimildir sem settar eru í frumvörp. Með þeim er löggjafinn í raun að framselja vald sitt til framkvæmdarvaldsins og það finnst mér mjög bagalegt vegna þess að þá hefur Alþingi sjálft ekki yfirsýn yfir lagasetninguna. Umboðsmaður Alþingis varar einmitt við, í kaflanum um gæði lagasetningar, of miklum og víðtækum valdaheimildum í formi reglugerða.

Allt ber því að sama brunni. Við þurfum að stórbæta lagasetningu. Það staðfestist í þessari skýrslu. Ég tek heils hugar undir með umboðsmanni Alþingis þegar hann fjallar um að við þurfum að koma málefnum lagasetningar í það horf að stofna lagaskrifstofu Alþingis til að hafa utanumhaldið í lagi og ekki síst yfirsýnina.

Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu því hér er gefinn svo skammur tími til umræðu um þær mikilvægu skýrslur sem eru skýrslur umboðsmanns Alþingis.