141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[15:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum nokkuð sammála í þessum efnum. Ég vil reyndar nálgast lagaskrifstofuna í forsætisráðuneytinu með jákvæðum huga og vona að hún fái til þess styrk og afl að sinna hlutverki sínu. Það er mikilvægt að frumvörp sem koma frá ríkisstjórn inn í þingið séu líka vönduð og ég vona að sú skrifstofa fái svigrúm og fjármuni til að vinna störf sín sómasamlega. Oft er ýmsu ábótavant í þeim frumvörpum sem unnin eru í einstökum ráðuneytum og það getur hjálpað til í ferlinu ef samræmd skrifstofa á vegum forsætisráðuneytisins fer yfir frumvörpin.

Ég óttast hins vegar að þessi ágæta skrifstofa sé of fáliðuð til þess að geta gert það sem henni kannski er ætlað. En það er önnur saga. Stofnun hennar breytir þó í mínum huga engu um að þingið sjálft verður að hafa starfsemi, starfsmenn eða sérfræðinga, á sínum snærum sem geta unnið þá vinnu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og reyndar umboðsmaður Alþingis eru að vísa til.

Þetta er bæði mikilvægt með tilliti til þess að farið sé yfir þau frumvörp sem koma inn í þingið en skiptir ekki síður máli þegar mál eru til meðferðar í þinginu því að oft verða á þeim breytingar meðan á málsmeðferð stendur, eðlilega, til þess er ætlast af þinginu að það geri breytingar. En það skiptir mjög miklu máli að þær breytingar séu gerðar á traustum, lagalegum grundvelli, ekki í einhverri tilviljanakenndri starfsemi þingmanna eða þingnefnda á lokaspretti við afgreiðslu mála eða eitthvað þess háttar. Það skiptir því máli að hjá þinginu sé fyrir hendi fagþekking og mannskapur sem hefur tök á því að (Forseti hringir.) vinna þetta. Nefndasvið Alþingis er ágætlega mannað, það eru góðir starfsmenn þar en þeir eru of fáir miðað við það mikilvæga starf sem þeim er ætlað.