141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[15:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það komi hér fram að ég er ekki á nokkurn hátt að finna að því starfsfólki sem vinnur á lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins né á nefndasviði Alþingis, svo að það sé sagt. Við erum hér að reyna að fást við það að koma lagasetningu í lag án þess að þurfa að gagnrýna einhvern persónulega. Ég hef talað mjög fyrir því að Alþingi verði styrkt bæði fjárhagslega og faglega.

Varðandi það hins vegar sem hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir um lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins þá hef ég verið að líta til Norðurlandanna og sækja hugmyndir þangað því að við eigum ekki að finna upp hjólið. Á Norðurlöndunum sér lagaskrifstofa þingsins — í Noregi er hún í dómsmálaráðuneytinu — um að jafnræði sé á milli allra frumvarpa og þingsályktunartillagna sem koma fyrir þingið. Öll frumvörp, sama hvort þau eru frá ríkisstjórninni eða þingmönnum, fara inn til yfirlestrar og prófað er hvort þau standist lög sem í gildi eru.

Það er það sem ég er raunverulega að biðja um með því að hér verði stofnuð lagaskrifstofa. Hér á landi, þar sem mikil hefð er fyrir meirihlutastjórnum, er það algjörlega nauðsynlegt fyrir minni hlutann á hverjum tíma að frumvörp þingmanna sem sitja hinum megin við borðið séu tekin jafngild og séu ekki afgreidd á þá leið að á þeim séu gallar á sama tíma og frumvörp ríkisstjórnarflokkanna hafa fengið slíkan faglegan yfirlestur. Það kalla ég ójafnræði vegna þess að í þessum þingsal eiga allir að vera jafnir, hvort sem það eru ráðherrar eða þingmenn, og allar skoðanir jafnréttháar.

Varðandi þessa óræddu skýrslu þá tek ég undir það, sem kom fram í fyrra andsvari hv. þingmanns, að það er alveg hreint með ólíkindum að ekki skuli gefast til þess tími í störfum þingsins að ræða skýrsluna. (Forseti hringir.) Ég vona, virðulegi forseti, að við lærum af mistökum liðinna ára og að Alþingi fari að taka hlutverk sitt (Forseti hringir.) alvarlega þegar kemur að umboðsmanni Alþingis, því mikilvæga embætti.