141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[15:16]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því að þessi umræða um skýrslu umboðsmanns Alþingis er komin í þingsal þótt seint sé. Það er ljóst mál að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur hlutverk sitt alvarlega og vill að fylgt sé eftir þeim ákvæðum og samþykktum sem liggja fyrir um það að ekki einungis sé verið að veita álit og umsögn um svo mikilvæga skýrslu sem þessa, heldur fái hún líka þá umræðu sem henni ber í þingsal og þar sé komið við í umræðu um þau helstu álitaefni og ábendingar sem er að finna í þessum ársskýrslum.

Það er ekkert launungarmál að starf umboðsmanns Alþingis og það embætti er, eða a.m.k. í mínum huga, einn mikilvægasti þáttur í eftirliti með stjórnskipan og réttindamálum borgaranna sem hefur verið sett á laggirnar hér á landi. Í mínum huga hefur tekist mjög vel til í því starfi öllu, samanber hvernig þeir umboðsmenn sem hafa sinnt þessu starfi hafa rækt það og hvernig þeir hafa mótað starf sitt og vinnubrögð varðandi afgreiðslu mála og þær ábendingar sem eru settar fram af hálfu embættisins. Þess vegna eru auðvitað þau gögn og þær upplýsingar sem fyrir liggja í þeim skýrslum sem umboðsmaður Alþingis sendir frá sér efni sem ber að taka alvarlega og ræða ítarlega af hálfu Alþingis, hvort heldur er í viðkomandi nefndum eða eins og í þessu tilfelli í þingsal.

Í skýrslunni fyrir árið 2010, sem við höfum nú til umræðu, er komið inn á ýmis atriði og ástæða til að nefna nokkur þeirra sem mér finnst skipta meira máli en önnur. (Gripið fram í.) Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, fór mjög ítarlega yfir málið í framsögu sinni í upphafi þessarar umræðu og ég ætla ekki að endurtaka það. En það eru nokkur atriði sem mér finnst þess virði að vekja sérstaklega athygli á og koma fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis. Hann nefnir sérstaklega tafir í opinberri stjórnsýslu og málshraða varðandi afgreiðslu þeirra athugasemda og ábendinga sem koma fram frá almenningi til stofnana í kerfinu. Það á auðvitað ekki að líðast á þeim tímum sem við lifum þar sem öll nútímatækni er til staðar til þess að bregðast hratt og skjótt við. Á sama hátt og almenningur hefur þennan opna vettvang til að koma athugasemdum sínum á framfæri á hann að fá skýr svör og viðbrögð innan tiltekins tíma. Það er greinilegt miðað við það hvernig mál hafa þróast í gegnum tíðina að langstærsti hluti þeirra athugasemda sem koma inn á borð umboðsmanns ár hvert, hátt í fimmtungur, er vegna málshraða, það að fá svör ekki við athugasemdum. Það segir í sjálfu sér ekkert um það hvort í þeim tilfellum sem hafa komið fram ábendingar og athugasemdir af hálfu almennings sé um einhverja bresti að ræða eða vankanta í stjórnsýslunni sjálfri, nema í það minnsta að því leyti að viðbrögðin eru sein. Það er nokkuð sem á ekki að þurfa að búa við. Það er alveg ljóst að bregðast þarf við þessu með því að setja skýrar verklagsreglur eins og umboðsmaður bendir á. Hann nefnir líka að með rafrænni tækni sem engin þjóð í heiminum hefur eins ríkan aðgang að og við Íslendingar eigi það ekki að vera vandi af hálfu hins opinbera að geta leitað eftir svörum og upplýsingum og brugðist við og komið viðbrögðum til þess sem leitar eftir skýringum og vill fá svör við málaleitan sinni.

Vissulega er fjöldinn allur af málum sem koma inn á borð umboðsmanns, jafnvel innan við helmingur, þess eðlis að hann kallar á sérstök viðbrögð eða úrskurð í sama anda og er í nálægum löndum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var á ferð í Noregi fyrir skemmstu, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, og átti þar ágætisfund með norska umboðsmanninum og starfsfólki hans. Ef ég man rétt eru á milli 50% og 60% af málum sem koma þar inn á borð afgreidd á mjög einfaldan máta. Þau eru kannski ekki stór, ámælisverð verkefni eða miklar athugasemdir gerðar við þau en engu að síður skiptir máli að fólk fái viðbrögð og svör við athugasemdum sínum. Langstærsti hluti þeirra mála sem eru uppi í Noregi, og ég get ímyndað mér að það sé svipað hér, lýtur að almannatryggingum og tryggingakerfinu þar sem fólk er að leita réttinda sinna varðandi bætur og önnur almenn réttindi. Það skiptir máli að þeir sem þar eiga í hlut þurfi ekki að bíða mánuðum og missirum saman eftir að fá svör við einföldum spurningum.

Hinn þátturinn, virðulegi forseti, sem ég vildi nefna hér kemur fram í skýrslu umboðsmanns og lýtur að eftirlitsþætti í starfi stjórnvalda. Ég fagna því að umboðsmaður tekur á þessum atriðum. Hann bendir á í skýrslu sinni, sem er fyrir árið 2010, að miklar breytingar hafi orðið í umfangi og formi eftirlits í samfélagi okkar, þó fyrst og fremst eftir að við gerðumst aðilar að EES-samningnum á sínum tíma. Íslenska samfélagið stóð í raun frammi fyrir gjörbreyttum veruleika. Hvernig bar okkur að haga okkur gagnvart þessum þáttum, hvort heldur lýtur að innra eftirliti stjórnvalda með stofnunum sínum og allri sinni starfsemi eða því eftirlitshlutverki sem sinnt er af hinu opinbera gagnvart einkastarfsemi með margvíslegum hætti?

Eftirlit hefur oft verið mikið gagnrýnt í umræðunni. Það má finna eitt og annað í þeirri umræðu sem ástæða er til að staldra við. Eftirlitsstarfsemin er víða mikil og umfangsmikil og kostar sitt. Alvarlegi þátturinn hvað það snertir er að við höfum upplifað það á undanförnum árum að miklir brestir og brotalamir eru í þessu eftirlitskerfi. Ekki þarf að horfa eingöngu á það eftirlit sem átti að vera með fjármálum, bankastarfsemi og því sem lýtur að rekstri samfélagsins á þeim sviðum, heldur getum við horft á ýmsa aðra þætti sem snúa að heilbrigðismálum, hollustu, efnaiðnaði, innflutningi á tækjum og tólum og hverju öðru sem til má nefna. Við fáum því miður allt of oft framan í okkur uppákomur, sem ég vil nefna svo, þar sem kemur á daginn að eftirlitið virðist ekki hafa bolmagn eða getu til að sinna því sem því ber og við göngum út frá og ætlumst til. Í athugasemdum og skýrslu umboðsmanns Alþingis er vikið sérstaklega að því að innra kerfið á einkamarkaði sé til viðbótar að mörgu leyti hrætt við að gera athugasemdir við hið opinbera eftirlit vegna þess að það geti haft í för með sér áhættu sem snýr að því að mönnum verði hegnt fyrir af hálfu stjórnvalda. Þetta er annar þátturinn sem ber að hafa áhyggjur af.

Ég vil líka vekja athygli á hinum þættinum sem snýr að því að eftirlitskerfið er engan veginn í stakk búið til að sinna því sem því ber. Þetta eru kannski stór orð, en ég verð bara að vísa til þess sem við höfum orðið áskynja og fengið í andlitið trekk í trekk. Það er hægt að nefna hér fjölmörg dæmi en ég ætla að sleppa því, þau þekkja allir.

Ég tel mjög mikilvægt að sá þáttur sem umboðsmaður Alþingis vekur athygli á fái víðtækari og almennari umræðu og að farið verði í að skoða heildstætt þá hluti sem lúta að almennu eftirlitsumhverfi í samfélaginu. Það er klárt mál í mínum huga að þar eru ýmsar brotalamir. Það verður að samhæfa þessa hluti og ná betur utan um þá þannig að þjóðin, almenningur, geti treyst því að það fjármagn sem við leggjum til í stórum mæli í að skapa það öryggi sem á að vera til staðar sé tryggt svo að það nái fram að ganga eins og ætlast er til í lögum og reglum.