141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða umræðu og vil fyrst nefna það sem fram kom hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um að starfsmenn Alþingis og starfsmenn dómsmála standa öðruvísi að vígi en annað fólk í landinu hvað það varðar að þeir geta ekki leitað til umboðsmanns Alþingis. Mér finnst það mjög umhugsunarvert og tel að skoða þurfi mjög vel hvort ekki sé hægt að breyta því einhvern veginn.

Það sem upp úr stendur í þessum umræðum varðar tafir sem verða á afgreiðslu mála hjá stjórnsýslunni. Þær eru ekki góðar og málshraðinn virðist vera of hægur og þess vegna er nauðsynlegt að setja verklagsreglur. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði áðan, ef viðmiðunartíminn er of stuttur þarf að lengja hann þannig að fólk viti hvar það stendur. Það er alltaf betra að vita hvar maður stendur en að á manni sé brotinn réttur. Þá eiga stjórnvöld líka að láta vita af því ef þau sjá að þau geti ekki afgreitt mál innan þess tíma sem þeim er settur. Það er lágmarkskurteisi.

Einnig hefur verið nefnt að þær reglur sem eru í stjórnsýslulögum eru lágmarksreglur, það má alltaf gera betur. Þess vegna hlýtur fólk að lýsa vonbrigðum með hversu mikið þarf að kvarta yfir því.

Síðan hafa hv. þingmenn fjallað um eftirlitshlutverk, ég nefndi það til dæmis í inngangi mínum hér. Mér finnst ógnvænlegt, ég vil nota það orð, að einhverjir einstaklingar eða þeir sem reka fyrirtæki kvarti ekki undan þeim eftirlitsstofnunum sem eiga að hafa eftirlit með þeim vegna þess að þeir óttast að það komi niður á þeim síðar. Það er náttúrlega ógnvænlegt og óþolandi og því þarf að breyta.

Einnig er hægt að taka undir að það þarf að fara yfir eftirlitsstofnanir í heild og samræma hvernig stofnanir framfylgja eftirlitshlutverki sínu.

Eins og ég gat um í inngangi mínum í dag var skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2011 sett í pósthólf alþingismanna í dag. Umboðsmaður mun mæta á opinn fund sem sýndur verður beint út á alþingisrásinni kl. 10 fimmtudaginn 1. nóvember þar sem fjallað verður um þá skýrslu. Ég mun leggja áherslu á að nefndarálitið verði tilbúið svo fljótt sem auðið er þannig að við komumst helst yfir það að tala um skýrsluna í þingsal á þessu ári, ekki bara á þessu þingári heldur fyrir jólafrí þingmanna.