141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 167/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

279. mál
[15:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið enda tökum við þetta mál fyrir í hv. utanríkismálanefnd þar sem ég á sæti. Ég vildi þó koma hingað upp til að gleðjast yfir því sem segir á bls. 3 í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að hér sé verið að gera breytingar sem miða að því að létta skyldur af fyrirtækjum og að ekki sé talið að aukinn kostnaður muni leggjast á einkaaðila vegna tilskipunarinnar. Ég tel ástæðu til að fagna þessu sérstaklega og vona að við vinnu nefndarinnar komi fram að þetta standist allt saman, ég á ekki von á öðru.