141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

281. mál
[15:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar sem einhver misskilningur varð milli okkar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forseta, tókst mér ekki að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að gleðja mig áðan í fyrri ræðu. Ég geri það þá hér með núna.

Það er ein spurning sem vaknar við þessa þingsályktunartillögu sem fjallar um húsgöngu- og fjarsölu. Nú þekki ég þau lög alls ekki, ég verð alveg að viðurkenna það og ég þyrfti að kynna mér þau betur.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Húsgöngu- og fjarsala í mínum huga fær mig til að hugsa til ýmissar fjáröflunartengdrar starfsemi á vegum góðgerðarsamtaka og íþróttafélaga, gengið er í hús og ýmislegt er selt. Mun þetta ná yfir slíkt?

Nú er ég ekki að vekja máls á þessu alveg í tilgangsleysi vegna þess að upp kemur rauða flaggið, stóra múffumálið. Það var lítil og krúttleg Evróputilskipun sem varð til þess að kvenfélög og íþróttafélög máttu ekki lengur selja heimabakað bakkelsi til fjáröflunar. Er nokkur hætta, þar sem þetta mál setur húsgöngu- og fjarsöluaðilum reglur? Hér segir: „Ætla má að seljendur vöru og þjónustu þurfi að aðlaga sínar aðferðir við markaðssetningu til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar …“ Eru fjáraflanir íþróttafélaga og góðgerðarsamtaka í húsgöngu- og fjarsölu nokkuð í hættu við þessa tilskipun?