141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

281. mál
[16:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jafnvirkan þátt og hv. þingmaður tekur jafnan í þingstörfum undrar mig að hún skuli ekki þekkja til hlítar lög nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga. (REÁ: … upplýsa mig.) Sú þekking sem ég hef á þessum málum er það yfirgripsmikil að mér nægir ekki andsvar til að útausa henni.

En það er misskilningur hjá hv. þingmanni að tilskipun frá ESB hafi á sínum tíma leitt til þess að ekki var leyfilegt að selja múffur eða kökur á laugardagsbösurum eða í fjáröflunarskyni. Það var vegna frumvarps sem fór í gegnum þingið á sínum tíma — ég vona að það hafi ekki verið með atkvæði hv. þingmanns — frá þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, svo það komi algjörlega skýrt og ljóst fram. Það hafði ekkert með Evrópusambandið að gera.

Hins vegar tek ég virkan þátt í fjáröflun íþróttafélaga og hvers kyns góðgerðarfélaga og jafnan þegar í mig er hringt eða á mig er kallað til að kaupa, geri ég það. Síðast í dag festi ég kaup á 48 salernisrúllum sem tengdust för íþróttafélags og yngri flokks til útlanda. Ég skora á hvern þann sem vantar fjármagn til þessa að hafa samband við utanríkisráðherra sem segir jafnan já.

Til að friða hv. þingmann sem ég veit að ber fyrir brjósti velferð félaga og ungs fólks sem aflar sér fjár með þessum hætti, nær tillagan einvörðungu til fjárfestinga sem eru svo stórar að gera þarf um þær sérstaka samninga. Sú töluvert mikla þekking sem ég hef af þessari hlið íþróttafélaga hnígur að því að tillagan nái alls ekki til hennar. Skulum við hv. þingmaður sameinast um að tryggja það þegar málið er endanlega unnið af hálfu þingsins.