141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

281. mál
[16:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að deila með okkur fróðleik um lög nr. 46 frá árinu 2000 og skora á hann að fara í aðra ræðu vegna þess að ég fann það á honum að hann átti ýmislegt eftir ósagt um þau ágætu lög.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka af öll tvímæli um að þessi tillaga mun ekki hafa áhrif á þá mikilvægu fjáröflun sem fram fer með því að ganga í hús og selja salernisrúllur. Ég get upplýst það að ég keypti einmitt í gærkvöldi dagatal frá Þroskahjálp heima hjá mér þar sem komið var og mér boðið þetta til kaups.

Ég taldi að stóra múffumálið, eins og það var útskýrt fyrir mér — ég vona svo sannarlega að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að það hafi ekki komist í gegnum þingið með mínu atkvæði á sínum tíma — væri upphaflega til komið vegna Evróputilskipunar. Ég bið forláts ef það hefur ekki verið réttur skilningur, þannig hef ég heyrt talað um það.

En þótt við séum að ræða þetta á léttum nótum er þetta kannski dæmi um að við þurfum að gæta okkar þegar við fjöllum um Evróputilskipanir. Við sjáum á þátttökunni í umræðunum í dag að þetta eru mál sem eiga það til að renna hér í gegn án þess að við tökum mikinn þátt í því.

Við eigum eftir að klára vinnuna í utanríkismálanefnd, en ég vildi vekja athygli á þessu og við munum skoða þetta. Þetta er ekki stærsta hagsmunamálið sem brennur á okkur hér, en það skiptir máli fyrir þá sem það varðar, rétt eins og stóra múffumálið (Forseti hringir.) skipti máli fyrir hlutaðeigandi