141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[16:27]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka innanríkisráðherra fyrir svarið og ítreka að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er gríðarlega mikilvægur þeim sveitarfélögum sem eiga þar hagsmuna að gæta. Ég fagna þeirri breytingu sem þarna er gerð varðandi jöfnun innbyrðis og að verið sé að horfa frekar til útgjalda en annars. Ég fagna því líka sem fram kemur varðandi grunnskólana. Rætt hefur verið um það frá því að grunnskólarnir voru fluttir frá ríkinu til sveitarfélaganna að þar muni koma ákveðin leiðrétting. Ég trúi því og treysti að svo verði.

Ég tek undir vonir hæstv. innanríkisráðherra um að nefndin taki á álitamálinu varðandi prósentutöluna og svari því einnig af hverju hún var ekki hreinlega sett inn í frumvarpið. En hæstv. innanríkisráðherra fullvissar mig um að nefndin muni skila niðurstöðu um það.