141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[16:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 83. gr. laganna en í þeirri grein er fjallað um skilyrði fyrir beitingu aðgerða sem kveðið er á um í 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. laganna.

Samkvæmt 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. laganna er lögreglu heimilt að grípa til tiltekinna aðgerða í þágu rannsóknar sakamáls, aðgerða sem skerða friðhelgi einkalífs á tilfinnanlegan hátt þar sem til þeirra verður einungis gripið að þeir sem þær beinast að viti ekki af þeim. Þær aðgerðir sem hér um ræðir eru símahlustun, þ.e. símhlerun, og upptaka símtala, sbr. 81. gr., upptaka á samtölum, annars konar hljóðum eða merkjum, sbr. a-lið 1. mgr. 82. gr., taka ljósmynda og kvikmynda, sbr. b-lið 1. mgr. 82. gr., og notkun eftirfararbúnaðar, sbr. c-lið 1. mgr. 82. gr.

Þar sem hér er um verulegt inngrip að ræða í friðhelgi einkalífsins er mikilvægt að heimildir til slíkra aðgerða séu skýrar og að ekki sé til þeirra gripið með vísan til óljósra og matskenndra heimilda. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga um meðferð sakamála verður umræddum aðgerðum einungis beitt að fyrir því liggi dómsúrskurður.

Önnur skilyrði fyrir beitingu aðgerðanna er að finna í 83. gr. laganna, en samkvæmt 1. mgr. er beiting þeirra aðeins heimil ef ástæða er til að ætla að upplýsingar sem fást geti skipt miklu fyrir rannsókn máls. Samkvæmt 2. mgr. 83. gr. er auk þess sett það skilyrði að rannsóknin beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess. Brotið sem er til rannsóknar þarf þannig að falla undir refsiákvæði þar sem refsiramminn nær átta ára fangelsi. Þó nægir jafnframt að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess að til slíkra aðgerða verði gripið jafnvel þótt rannsókn beinist að broti sem varðar fangelsisvist skemur en til átta ára eða aðeins sektum.

Í lögunum er hins vegar ekki að finna skilgreiningu á því hvað flokkist undir almannahagsmuni eða einkahagsmuni.

Undanfarið hefur komið fram sú gagnrýni að skilyrði fyrir beitingu símahlustunar og skyldra aðgerða séu ekki nógu skýr og því sé hætta á að slíkar aðgerðir geti verið heimilaðar í meira mæli en nauðsynlegt sé og án nægjanlegs rökstuðnings.

Ég hef talið það vera grundvallaratriði að heimildum til beitingar aðgerða sem hafa svo mikla íhlutun í friðhelgi einkalífsins í för með sér og hér um ræðir sé settur skýr rammi. Fór ég þess á leit við réttarfarsnefnd ráðuneytisins að nefndin ynni frumvarp sem setti heimildum til beitingu þessara aðgerða skýran ramma. Þannig væri tilvísun dómstóla til óljósra almanna- eða einkahagsmuna ekki nægjanleg fyrir beitingu aðgerðanna heldur lægi skýrt fyrir á hvaða grunni heimildin byggðist.

Þá lagði ég ríka áherslu á að skýrt skyldi kveðið á um heimildir lögreglunnar til að fara fram á beitingu slíkra aðgerða í baráttunni við skipulagða brotastarfsemi. Er þetta í takti við þá afstöðu mína sem ég hef ítrekað gert grein fyrir í þingsal að taka beri alvarlega ábendingar lögreglunnar um að það skorti á heimildir til að fylgjast með skipulögðum glæpasamtökum sem sannanlega hafa glæpsamlegan ásetning, í samræmi við skilgreiningu alþjóðalaga og 175. gr. a. almennra hegningarlaga.

Að sama skapi hef ég undirstrikað að ógnin sem stafar af skipulögðum glæpasamtökum eigi ekki að vera notuð sem vopn í baráttu þeirra sem vilja innleiða víðtækar forvirkar rannsóknarheimildir, jafnvel stofnun leyniþjónustu á Íslandi.

Með þessu frumvarpi er lagt til að aðeins megi veita lögreglu heimild til símahlustunar eða hlerunar og þeirra skyldu aðgerða sem ég hef áður reifað, ef rannsókn beinist að broti þar sem refsiramminn er allt að sex ára fangelsi og að auki verði ríkir almanna- og einkahagsmunir að krefjast þess. Er hér lagt til að refsiramminn verði lækkaður frá því sem nú er þar sem nauðsynlegt þykir að unnt verði að beita þessum aðgerðum við rannsókn alvarlegra brota, svo sem fíkniefnabrota, auðgunarbrota, til dæmis fjársvika, umboðssvika eða skilasvika sem og peningaþvætti. Það er þó ekki nóg að uppfyllt sé skilyrði um refsirammann heldur verða almanna- eða einkahagsmunir jafnframt að krefjast beitingu aðgerðanna.

Í þeim lögum sem nú eru í gildi er það annaðhvort að refsiramminn taki til átta ára fangelsis eða ríkir einkahagsmunir eða almannahagsmunir krefjist þess. Samkvæmt þessu frumvarpi þarf þetta hvort tveggja að fara saman.

Þá er lagt til að heimilað verði að beita þessum aðgerðum þó að refsirammi brots nái ekki sex árum ef til rannsóknar eru brot unnin í tengslum við skipulagða brotastarfsemi, sbr. gr. 175 a. almennra hegningarlaga, um vændi, sbr. 206. gr., og klám, sbr. 210. gr. almennra hegningarlaga, en í greinargerð er sérstaklega vísað til barnakláms; brot sem beinast gegn friðhelgi einkalífs, frjálsræði eða persónuvernd, svo sem frelsissvipting, sbr. 226. gr., brot gegn nálgunarbanni, sbr. 1. mgr. 232. gr., og hótanir, sbr. 233. gr. almennra hegningarlaga.

Í umræðum um þessi málefni hafa ítrekað komið fram ábendingar um að eftirlit með rannsóknarheimildum sé ekki í nægilega traustum farvegi. Samkvæmt núgildandi löggjöf hefur ríkissaksóknari eftirlit með störfum lögreglu og þar með talið beitingu rannsóknarheimilda. Á síðasta ári komu fram upplýsingar þess efnis að því eftirliti væri ábótavant og var meðal annars vísað til fjárskorts embættis ríkissaksóknara. Ég tók málið samstundis upp við ríkissaksóknara og eru þessi mál nú í betri farvegi en áður. Hins vegar hefur því verið velt upp hvort auka ætti enn frekar eftirlit með beitingu þessara úrræða og þá mögulega með aðkomu Alþingis eins og dæmi eru um í öðrum ríkjum. Þingið eða fastanefnd þess gæti þá, svo dæmi sé tekið, einu sinni eða tvisvar á ári, oftar eftir atvikum, kallað eftir skýrslu um beitingu úrræðanna og sundurgreindum upplýsingum um þau brot sem heimildirnar hafa verið nýttar til rannsókna á. Með þessu yrði til ákveðið aðhald og veitti löggjafanum mikilvægar upplýsingar um virkni heimildanna.

Ég hef rætt þetta við formann allsherjarnefndar Alþingis sem hefur sýnt þessu mikinn áhuga og sömuleiðis við ýmsa aðra fulltrúa á þingi og í allsherjarnefnd þingsins. Niðurstaðan varð sú að í stað þess að ég setti fram tillögu um þetta í frumvarpinu mótaði þingið sjálft þann farveg sem það vill að þetta eftirlitshlutverk Alþingis fari í.

Ég mun leggja til að þetta frumvarp fari til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis en þar yrði væntanlega skoðað, meðal annarra hluta, hvort rétt væri að sú nefnd eða eftirlitsnefnd þingsins hefði þetta hlutverk með höndum. Ég tel mjög brýnt að yfir þetta verði farið mjög rækilega.

Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til tel ég að sett verði skýr skilyrði fyrir beitingu símhlerunar og skyldra íþyngjandi aðgerða sem þó eru nauðsynlegar svo unnt sé að upplýsa alvarleg brot. Tel ég að jafnframt séu skýrðar nauðsynlegar heimildir lögreglu til að fara fram á beitingu umræddra aðgerða við rannsóknir á brotum sem unnin eru í tengslum við skipulagða brotastarfsemi.

Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.