141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Hún er gagnleg og mjög mikilvæg. Hún hefur farið fram innan lögreglunnar eins og hér hefur komið fram. Hún hefur farið fram innan innanríkisráðuneytisins, innan Alþingis og á enn eftir að fara fram. Það hafa löngum verið einstaklingar innan lögreglunnar, þess vegna áhrifamenn innan lögreglunnar, sem hafa talað fyrir forvirkum rannsóknarheimildum og margir jafnvel viljað setja á laggirnar leyniþjónustu á Íslandi, það er alveg rétt. Innan lögreglunnar hafa líka verið einstaklingar andvígir þessu, menn sem ég hef löngum hlustað á. Ég þekki mjög vel til þessara mismunandi sjónarmiða innan lögreglunnar, það geri ég í gegnum áratugalangt starf mitt sem formaður BSRB og í mjög nánu samstarfi við lögregluna. Ég virði að sjálfsögðu öll þessi sjónarmið.

Það sem okkur hefur tekist að gera er að skapa mjög breiða samstöðu á Alþingi, innan löggæslunnar, innan stjórnkerfisins þar sem fleiri en eitt ráðuneyti hafa komið að málum, um að grípa til samhentra aðgerða til að kveða niður skipulagða brotastarfsemi í landinu. Það er mjög verðmætt. Ég er einfaldlega að hvetja til þess að við reynum að sameinast um það sem samstaða ríkir um á annað borð, en efnum ekki til mikils ófriðar um eitthvað sem horfir inn í framtíðina og verður án nokkurs vafa mikið deilumál í þinginu, t.d. hvort hér eigi að setja á fót leyniþjónustu með forvirkum rannsóknarheimildum. Það eru mjög skiptar skoðanir um það. Ég veit að ekkert annað en gott vakir fyrir þeim sem leggja slíkt til, að sjálfsögðu, ég hef engar efasemdir um það, en vek athygli á því að um þetta yrðu mjög miklar deilur, ekki bara innan veggja Alþingis heldur í samfélaginu almennt.