141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér dregur hæstv. ráðherra réttilega fram að góð samstaða hefur verið um að taka eins og hægt er á skipulegum glæpahópum. En hann segir svona í leiðinni að við skulum bara vinna saman að því sem hægt er að ná fullri samstöðu um en skulum ekkert vera að einbeita okkur að deilumálum, sleppum því, höldum samstöðunni en sleppum deilumálunum.

Forvirkar rannsóknarheimildir eru, eins og ég er búin að segja nokkuð oft, í gildi og virka á öllum Norðurlöndunum og í flestum evrópskum ríkjum. Að sjálfsögðu eigum við að koma þeim á hér líka. Þótt hópur innan VG og kannski innan fleiri stjórnmálasamtaka sé andsnúinn því eigum við samt að gera það. Ég held að það náist ekki endilega full samstaða allra þingmanna um þetta mál, það er vitað að hæstv. innanríkisráðherra og fleiri innan VG eru andsnúnir því. Ég fullyrði hins vegar að það er meiri hluti í þinginu fyrir því að afgreiða málið, ég fullyrði það miðað við þekkingu mína á stöðu mála varðandi forvirkar rannsóknarheimildir. Sá meiri hluti á ekki að fá að koma fram miðað við það sem hæstv. ráðherra segir hér.

Ég tel að ekki eigi að hætta við að vinna málið til enda í þinginu. Ég tel að sá meiri hluti eigi að koma fram sem er að mínu mati á bak við það að taka upp forvirkar rannsóknarheimildir í framtíðinni. Innanríkisráðuneytið eigi að fara í þá vinnu í framhaldi af því þegar búið er að samþykkja málið. Það náðist út úr nefnd en ekki var hægt að klára það út af málþófi og uppnámi í þinginu síðasta vor. Ég held að hægt væri að ná því í gegn núna, nema þeir sem eru mjög andsnúnir því fari að beita sér sérstaklega í þinginu, hæstv. innanríkisráðherra gæti kannski tekið upp á því. Það teldi ég mjög skaðlegt. Ég tel að það eigi að klára þetta mál. Við eigum að koma á forvirkum rannsóknarheimildum eins og gilda í norrænum ríkjum.