141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú fer myndin að teiknast upp. Að safna upplýsingum um einstaklinga og lögaðila án þess að rökstuddur grunur eða grunur sé fyrir hendi. Ég vil leyfa mér að óska eftir miklu nánari útskýringum. Þingmaðurinn segir jafnframt að hún vilji ekki að heimildum verði misbeitt. Hvað erum við að reyna að gera með þessu lagafrumvarpi hér? Við erum að reyna að setja skýrari reglur. Við erum að gera tilraun til að skilgreina í greinargerð hvað átt er við með einkahagsmunum og almannahagsmunum og tilgreina í hvaða tilvikum sé heimilt að gera þetta.

Ég hef spurt þá aðila innan lögreglunnar sem hafa kallað mest eftir forvirkum rannsóknarheimildum hvað þeir eigi nákvæmlega við. Ég hef ekki fengið nein svör. Ég hef ekki fengið annað að vita en óskina um stofnun sem hafi mjög rúmar heimildir til að beita dómgreind sinni og eins og þingmaðurinn segir, að menn innan lögreglunnar, innanríkisráðuneytisins, viti gerst um þessi mál.

Við höfum hlustað á mannréttindasamfélagið og ýmsa aðila sem hafa tjáð sig um mannréttindamál og það er varað við því að við höldum út á þessa hálu braut. Þess vegna förum við að ráðum slíkra aðila sem segja: Allar heimildir sem veittar eru verða að vera samkvæmt skýrum lögum og skýrum reglum, annars er hætta á því að við göngum gegn mannréttindunum. Það megum við aldrei gera.