141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að hæstv. innanríkisráðherra studdi það ásamt allsherjarnefnd að lögreglan fengi áfram fjárveitingar í það sérstaka átak sem var sett af stað til að uppræta skipulagða glæpastarfsemi, það var mjög vel. Það var full samstaða um það. Það fór aukafjárveiting í það verkefni sem var mjög brýnt. Það hefði verið mjög vont að hætta í miðjum klíðum þegar við vorum byrjuð að ná árangri. Ég tek heils hugar undir það.

Það breytir því ekki að við getum náð enn þá betri árangri, ekki bara gegn skipulagðri glæpastarfsemi heldur bara almennt í að fyrirbyggja alvarlega glæpi, með því að samþykkja forvirkar rannsóknarheimildir til lögreglu eins og gilda í norrænum ríkjum og flestum Evrópuríkjum.

Það er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðherra að umsagnaraðilar um frumvarp hæstv. innanríkisráðherra á síðasta þingi sögðu ekki orðrétt í umsögnum sínum að setja ætti þetta frumvarp í ruslið. Það sem stóð í umsögnum og kom fram í máli þeirra sem komu fyrir nefndina var: Þetta er skref aftur á bak, það má alls ekki samþykkja þetta. (Innanrrh.: Á hvern hátt var það aftur á bak?) Af því að eins og frumvarpið var orðað, hefði það verið samþykkt, hefði það grafið undan þeim heimildum sem lögreglan þó hefur. Það var þannig skref aftur á bak. Þetta getur hæstv. ráðherra kynnt sér ef hann les umsagnirnar sem komu til nefndarinnar. Það voru hins vegar mín orð að þetta frumvarp hefði farið í ruslið. En skilaboðin frá umsagnaraðilunum voru að frumvarpið væri ekki til bóta, það hafði ekki nein óveruleg áhrif heldur væri það skref aftur á bak. Þetta getur ráðherra kynnt sér ef hann skoðar umsagnirnar. (Innanrrh.: Undarlegar …)