141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

búfjárhald.

282. mál
[17:22]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að gefinn er kostur á að ræða þessa tvö frumvörp saman því þau eru algjörlega samhangandi. Það má eiginlega segja að hið minna frumvarp, frumvarp til laga um búfjárhald, sé að uppistöðu til afleidd breyting af frumvarpi til laga um velferð dýra sem ég ætla að byrja á að mæla fyrir. Það er á þskj. 316 og er 283. mál þessa þings.

Frumvarpinu var dreift á 140. löggjafarþingi. Það er endurflutt nú að mestu óbreytt. Þó hefur verið leitast við að bregðast við nokkrum atriðum sem upp komu í almennri umræðu og í umfjöllun í fjölmiðlum og víðar eftir að frumvarpið var lagt fram á fyrra þingi.

Þær breytingar eru helstar að gerðar eru breytingar á 20. gr. frumvarpsins sem fjallar um aflífun dýra, einnig á 34. gr. um þvingunarúrræði. Þá er og gerð breyting á 15. gr. sem fjallar um aðgerðir og meðhöndlun á dýrum og smávægilegar breytingar á 13. gr. frumvarpsins sem lúta að því að tryggja grasbítum útivist á beitarlandi á sumrin. Auk þess var bætt við frumvarpið almennri reglugerðarheimild og er það rökstutt nánar í greinargerð. Allar hafa þessar breytingar það að inntaki að taka af tvímæli þar sem þau þóttu einhver vera um að nægjanlega langt væri gengið eða vel um það búið að tryggja velferð dýra. Þær eru því í anda þeirra tillagna sem nefnd sem vann megintillöguna að frumvarpinu lagði fram, þótt frumvarpið tæki lítils háttar breytingum í meðförum ráðuneytisins í því opna umsagnarferli sem það fór í sumarið 2011, eins og nánar verður komið inn á á eftir.

Með þessum breytingum er í öllum tilvikum reynt að miðla málum eða ganga til móts við þær gagnrýnisraddir sem heyrðust eftir að frumvarpið var lagt fram. Ég leyfi mér þó að segja að að uppistöðu til hafi því verið vel tekið og flestir séu sammála um að í heildina sé þessi breyting til mikils batnaðar fyrir málaflokkinn.

Ég held að nauðsynlegt sé, úr því að ekki tókst svo mikið sem að mæla fyrir frumvarpinu á síðasta þingi, að fara yfir forsögu og aðdraganda málsins. Ég mun því nota nokkuð af tíma mínum í það í stað þess að eyða honum öllum í umfjöllun um frumvarpið sem slíkt og vísa til umsagna um einstakar greinar og greinargerðina í þeim efnum.

Sú er forsaga málsins að með bréfi umhverfisráðherra þáverandi, dags. 2. apríl 2008, var tilkynnt að ákveðið hefði verið að skipa nefnd til að koma með tillögu að heildarendurskoðun dýraverndarlaga, nr. 15/1994. Töluverð umræða hafði orðið, bæði hjá hinu opinbera og utan opinbera geirans, um að þörf væri á endurskoðun innan málaflokksins. Markmiðið með endurskoðuninni var meðal annars að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar yrði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd. Í því sambandi skyldi farið yfir hvort endurskoða þyrfti þvingunarúrræði og viðurlög laga um dýravernd. Nefndinni var falið að fara yfir efnisákvæði laganna um vernd dýra og kanna hvort þörf væri á að auka þá vernd. Þá átti nefndin að taka til athugunar hvort ástæða væri til að setja í lög ákvæði um aðbúnað og umhirðu gæludýra og um dýrahald í atvinnuskyni og koma með tillögur um ákvæði varðandi aðferðir við að fanga gæludýr sem sloppið hafa úr umsjón manna, ganga laus og þykja til ama. Nefndinni var einnig falið að meta hvort tilefni væri til að setja ákvæði um eyðingu meindýra í lögin.

Nefndin fór jafnframt, samkvæmt skipunarbréfi sínu, yfir ákvæði laga um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, og ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, sem varða dýravernd, með það fyrir augum að samræma sem best ákvæði þessara laga og laga um dýravernd. Nefndin hafði samráð við innanríkisráðuneytið um hlutverk lögregluyfirvalda við framkvæmd dýraverndar.

Í júlí 2011 skilaði nefndin af sér tillögum að frumvarpi til nýrra laga um velferð dýra ásamt greinargerð. Nánar er um störf nefndarinnar fjallað í I. kafla almennra athugasemda með frumvarpi þessu, en það byggir á tillögum nefndarinnar í öllum meginatriðum eins og áður sagði, með smávægilegum breytingum þó sem unnar voru í ráðuneytinu í kjölfar þess að leitað var álits sumarið 2011. Frumvarpið var þá sent fjölmörgum aðilum og einnig birt á heimasíðu ráðuneytisins. Með þessu verklagi var reynt að gæta samráðs við hagsmunaaðila og aðra aðila sem láta sig sérstaklega varða velferð dýra. Þeir eru auðvitað margir eins og kunnugt er og er það vel.

Svo meginatriði frumvarpsins séu rakin er lagt til að eitt ráðuneyti fari með forsjá löggjafar um velferð dýra og ein stofnun, Matvælastofnun, fari með framkvæmd málaflokksins, en mikil fagþekking á velferð dýra er til staðar hjá þeirri stofnun. Þá er fagráði um velferð dýra sem fjallað er um í 5. gr. frumvarpsins ætlað mikilvægt hlutverk. Lagt er til að hugtakið „dýravelferð“ komi í stað hugtaksins „dýravernd“. Þannig er innleidd krafa um velferð dýra sem er víðtækara en krafan um dýravernd og er í takt við þróun mála í innlendri löggjöf og í löggjöf nágrannaþjóða okkar, en nefndin hafði til hliðsjónar við vinnu sína lög og greinargerðir um þessi mál erlendis frá, einkum nýlega löggjöf frá Noregi. Þó flestir geri skýran greinarmun á hugtakinu dýravernd sem felur í sér kröfuna um mannúðlega meðferð hvers einstaks dýrs fyrir sig og dýravernd í merkingunni stofnvernd, þ.e. að komið sé í veg fyrir að einstakir stofnar hjaðni mjög eða deyi út, getur þó hugsanlega komið upp misskilningur um ýmis atriði sem sjálfsagt er að forðast eftir því sem frekast er unnt. Því er innleiðing hugtaksins „velferð dýra“, til viðbótar því sem þegar hefur verið nefnt, til þess fallin að forða hættu á slíkum misskilningi.

Hin nýja löggjöf sem lagt er til að tekin verði upp í málaflokknum ásamt verkefnaflutningum felur í sér að breyta þarf nokkrum lögum til viðbótar. Er lagt til að það verði gert samhliða, samanber 42. gr. lagafrumvarps þessa. Eðlileg afleiðing af heildarlöggjöf um velferð dýra auk flutnings málaflokksins er að lög nr. 103/2002, um búfjárhald og fleira, verði einfölduð þar sem þau í núverandi mynd fjalla að töluverðu leyti um velferð búfjár. Því er lagt til að þau verði einfölduð með nýju frumvarpi sem ég mun mæla fyrir hér á eftir.

Eins og getið var um að framan sendi ráðuneytið frumvarpið út í júlí til 2011 til álitsumleitunar hjá fjölmörgum aðilum sem málið varðar með einum eða öðrum hætti auk þess sem það var sett í almenna kynningu á vef ráðuneytisins og opnað þar fyrir athugasemdir. Mikill fjöldi umsagna barst ráðuneytinu, þar á meðal frá innanríkisráðuneytinu, sem tekið var tillit til að öllu leyti. Þá hefur reglulegt og mikið samráð verið haft við umhverfisráðuneytið um úrvinnslu málsins eðli málsins samkvæmt, enda fór þetta verkefni af stað að frumkvæði umhverfisráðuneytisins eins og ég gat um í upphafi máls míns.

Ég leyfi mér að fullyrða eða vona að um meginkerfisbreytinguna sé gott samkomulag og geti orðið áfram, þ.e. milli ráðuneytisins eða ráðuneytanna sem sérstaklega koma að málinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og einnig innanríkisráðuneytisins hvað réttargæsluþáttinn varðar. Þar undir heyra og málefni sveitarfélaganna en að sjálfsögðu skiptir miklu máli að gott samstarf sé við sveitarfélögin um þessa breytingu. Það leyfi ég mér að vona að geti orðið, að því einu frátöldu að nokkur ágreiningur er enn uppi um kostnaðarþætti málsins.

Almennt voru umsagnir jákvæðar. Þessi opni ferill málsins sumarmánuðina 2011 var mjög gagnlegur því í framhaldinu var tekið tillit til margra hluta sem þar kom fram svo sem vera ber. Það breytir ekki hinu að margt í frumvarpi af þessu tagi er dæmt til að vera umdeilanlegt enda um málaflokk að ræða þar sem skoðanir eru oft skiptar, tilfinningar eru heitar og sjónarmiðin afar fjölbreytileg sem að baki liggja. Það er því vandrataður meðalvegurinn í þessum efnum. En útgangspunktur vinnunnar hefur verið að setja velferð dýra í öndvegi og það þarf sterk rök til að veita nokkurn afslátt þar á.

Um kostnað við málaflokkinn sem mun hljótast af framfylgd mála samkvæmt frumvarpinu, verði það að lögum, liggur ljóst fyrir að hann mun aukast nokkuð. Það er einkum vegna þess að ráð er fyrir því gert að eftirfylgni með verkefnum sem með réttu ættu að hafa verið unnin, á nú að batna með þessum breytingum. Með öðrum orðum, við ætlum að standa betur að málaflokknum og það mun kosta sitt.

Nokkur meiningarmunur er enn til staðar milli ráðuneytanna, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um áhrif hinnar nýju lagasetningar á kostnað sveitarfélaga vegna málaflokksins, þá ekki hvað síst vegna áhrifa af breytingum sem gerðar verða á lagasetningu um búfjárhald sem er eins og fyrr segir nátengt því máli sem hér er mælt fyrir. Um þetta atriði vísa ég til umfjöllunar í fylgiskjali I og II með frumvarpi þessu. Sá ágreiningur lýtur í grunninn ekki að því hvað það muni kosta ríkið að taka að sér aukin verkefni á þessu sviði heldur fremur að hinu hvaða kostnaði verði þar með létt af sveitarfélögunum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginþáttum frumvarpsins sem er vissulega viðamikið og mætti taka langan tíma í að rekja í einstökum atriðum. Ég tel þó að miklu máli skipti, a.m.k. við fyrstu umfjöllun málsins, að horfa á stóru myndina og þá kerfisbreytingu sem hér er verið að framkvæma, hvernig hún er hugsuð, í hvaða tilgangi og hvort hún sem slík sé líkleg til að skila okkur þeim árangri sem við ætlum í þessum efnum. Síðan má að sjálfsögðu dvelja við einstök útfærsluatriði og verður ugglaust gert. Það er mikilvægt að sú þingnefnd eða þingnefndir sem koma að vinnu þessa máls gefi sér góðan tíma til að fara yfir þá hluti.

Það er enginn vafi í mínum huga að með gildistöku þessara laga yrði stigið stórt skref í þágu skjólstæðinga þeirra, dýranna í landinu. Þótt frumvarpið taki einkum til búfjárins og gæludýra er það stórt skref í sambandi við almenna velferð dýra á Íslandi. Meiningin er að hagsmunir þeirra verði eins vel tryggðir og kostur er og hvarvetna er nú gerð krafa um. Ekki síður þegar búið verður að setja þær reglugerðir sem semja þarf við lögin, en þær verða í sumum tilvikum viðamiklar og leysa af hólmi aðrar eldri sem gilt hafa um búfjárhald eða velferð dýra að öðru leyti. Að sjálfsögðu er mikill undirbúningur hafinn í ráðuneytinu um þessa reglugerðarsetningu og hefur það verið ætlun ráðuneytisins að vinna hana samhliða þinglegri umfjöllun málsins þannig að mögulega verði hægt að kynna fyrir þingnefndum, áður en þær ljúka endanlega umfjöllun, drög að reglugerðum sem miklu máli skipta hvernig verða útfærðar.

Að þessu sögðu, frú forseti, leyfi ég mér að leggja til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og atvinnuveganefndar.

Ég mæli þá fyrir frumvarpi til laga um búfjárhald sem er á þskj. 315, 282. mál þessa þings. Þar held ég að sé hægt að hafa ræðuna tiltölulega stutta því sá lagabálkur mun, ef samþykkt verður, einfaldast til mikilla muna frá því verið hefur af þeirri eðlilegu og einföldu ástæðu að mjög mikið af því sem núgildandi lög geyma hverfur inn í lögin um velferð dýra.

Frumvarpið var, eins og hið fyrra sem ég mælti fyrir, lagt fram á 140. löggjafarþingi og er nú lagt fram á nýjan leik óbreytt. Nefndin sem hafði með að gera samningu frumvarps til nýrra laga um velferð dýra lagði til að þau atriði sem varða velferð búfjár sem voru drjúgur hluti gildandi laga um búfjárhald og fleira, nr. 103/2002, yrðu færð yfir í hin væntanlegu heildarlög. Er sú leið valin hér.

Þar af leiðir að lög um búfjárhald munu eftirleiðis fyrst og fremst fjalla um vörslu búfjár, um merkingu búfjár og öflun hagtalna. Um þá þætti sem þar með hverfa úr lögum um búfjárhald og yfir í lög um velferð dýra, sem og varðandi tilurð málsins og önnur atriði sem tengjast vinnslu þessa frumvarps, get ég því vísað til framsöguræðu minnar áðan og til almennrar greinargerðar með frumvörpunum.

Fundað var í ráðuneytinu með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Bændasamtaka Íslands meðan á frágangi frumvarpsins stóð, en stærsta breytingin sem frumvarpið felur í sér, að öðru en hvað þá bragarbót varðar að færa öll ákvæði er varða velferð búfjár sérstaklega undir ný heildarlög, er að ráð er fyrir gert að verkefni búfjáreftirlitsins verði færð frá sveitarfélögum landsins yfir til Matvælastofnunar. Miklir hagræðingarmöguleikar eiga að felast í því er fram líða stundir, en vísa verður þó til þess sem áður sagði um ágreining á milli ráðuneytanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárhæðir í því sambandi, samanber fylgiskjal I með frumvarpi þessu.

Þá er hér meðfylgjandi kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið sem er í fylgiskjali II.

Loks vil ég minna á að frumvörp þessi eru samofin. Hér er talað fyrir hinu nýja frumvarpi um búfjárhald og ljóst að það fær ekki staðist öðruvísi en að heildarlögin um velferð búfjár verði sett. Þar af leiðir að Alþingi þarf að fjalla um þessi mál samtímis og eitt verður yfir bæði að ganga þegar kemur að lokaafgreiðslu málsins. Kostnaðarauki ríkisins og kostnaðaráhrifin hjá sveitarfélögunum, þ.e. sá kostnaður sem verður létt af þeim með þessum breytingum, er einnig algjörlega samofinn í málunum tveimur.

Frú forseti. Ég legg til að lokinni umræðu verði þessu máli sömuleiðis vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.