141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

búfjárhald.

282. mál
[17:49]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um velferð dýra og frumvarp um búfjárhald. Það fer vel á því að ræða þau saman og eins og hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði í framsögu sinni eru þau tengd órjúfanlegum böndum. Unnið hefur verið að þessu máli lengi enda er það stórt og yfirgripsmikið og það er náttúrlega mjög ánægjulegt ef það er unnið í sátt. Ég tel að það sem hér kemur fram sé til bóta.

Mér rennur blóðið til skyldunnar og verð aðeins að koma inn á aðkomu sveitarfélaga að málinu, en hæstv. atvinnuvegaráðherra kom reyndar inn á það efni. Mér hefur alltaf verið það dálítið óskiljanlegt hvers vegna ábyrgð sveitarfélaga á einni tiltekinni atvinnugrein hefur verið umfram ábyrgð á öðrum greinum. Varðandi búfjárhald í atvinnuskyni mun atvinnugreinin sjálf nú sjá um reglubundið búfjáreftirlit, upplýsingaöflun og annað það sem venjubundið er að samtök framleiðenda sjái um, svo ég nefni ekki lögbundna skyldu með fjallskil og slíkt sem sveitarfélögin hafa verið með á sinni könnu.

Samkvæmt þessu frumvarpi munu störf búfjáreftirlitsmanna færast klárlega frá sveitarfélögunum til Matvælastofnunar sem og öflun hagtalna og eftirlit með merkingum. Það er vel. Það er langsamlega eðlilegast að Matvælastofnun sé sá aðili sem fari með þessar lögbundnu valdheimildir og í samræmi við hlutaðeigandi héraðsdýralækni.

Sá fyrirvari hefur verið gerður af hálfu sveitarfélaganna varðar kostnaðinn og mig langar að draga það fram svo að sú umræða fari sem veganesti í vinnu nefndarinnar sem tekur við málinu. Það er ákveðin hætta á því að ákveðnar skyldur muni sitja eftir á sveitarfélögunum og þau hafa eðlilega áhyggjur af því að tekjur til að standa undir þeim kostnaði fylgi ekki með. Ákveðinn kostnaður vegna nýrra verkefna Matvælastofnunar er áætlaður, en þau verkefni sem flytjast frá sveitarfélögunum verða einungis hluti af starfssviði þeirra starfsmanna sem Matvælastofnun hyggst ráða.

Það er rétt sem hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði í framsögu sinni að kostnaði verður létt af sveitarfélögum með verkefnatilfærslunni. Kostnaðarmatið, ef ég fer rétt með, er 47,4 millj. kr. á ársgrundvelli og er það vel. Aftur á móti sýnist mér að það komi til ákveðinn kostnaður vegna hjálparskyldu, handsömunar og vörsluskyldu og sá kostnaður getur náttúrlega verið mismunandi eftir því af hvaða stærð sveitarfélögin eru og hversu umfangsmikil þau eru í þessum málaflokkum.

Það er eðlilegt og rétt að Matvælastofnun, eins og ég sagði í upphafi, beri lögbundnar skyldur í þessum málaflokki en maður veltir fyrir sér að ef þessi umframkostnaður lendir á sveitarfélögunum — það er ágreiningur um hver hann muni vera og nokkuð stórar tölur sem þar ber á milli — þá veltir maður fyrir sér hvort sveitarfélögin gætu sent reikning fyrir kostnaði sínum til Matvælastofnunar eða hvernig úr því verður bætt.

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að sveitarfélögin taki til sín aukin verkefni því að ég tel að þeir sem sinna nærþjónustunni í sveitarfélögunum geti sinnt þeirri skyldu vel, en þá þurfa líka tekjur að fylgja með. Það verður að varast að grá svæði myndist í þessum samskiptum þegar verkefni færast á milli vegna þess að þrýstingurinn myndast náttúrlega á þá sem vinna í sveitarfélögunum. Það er erfitt fyrir þá að neita þegar fólk og nærsamfélagið leggur fast að um að verkefni séu unnin.

Ég veit og treysti því að þingnefndin gefi sér góðan tíma til að fara yfir málið og taka tillit til þeirra umsagna og ábendinga sem borist hafa. Það kom fram í máli hæstv. atvinnuvegaráðherra að reglugerðirnar verði unnar á meðan á þinglegri meðferð stendur og það þykir mér vel því að ég hef ávallt verið talsmaður þess að reglugerðirnar séu unnar tímanlega. Þegar verið er að setja lög frá Alþingi koma reglugerðirnar oft mjög seint og stundum vill bregða við að þá sé markmiðum laganna ekki náð. Reglugerðirnar verða þess valdandi að markmið laga sem sett voru ná ekki fram að ganga. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reglugerðirnar verði tilbúnar þannig að markmiðum laganna verði náð og fagna því ef svo verður.

Að lokum vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég held að þetta mál sé til bóta. Það hefur tekið langan tíma í vinnslu og hefur verið unnið í ágætri sátt, en ég vildi draga fram sýn sveitarfélaganna á kostnaðarmatið.