141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

búfjárhald.

282. mál
[17:55]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Aðeins örfá orð af minni hálfu. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og einnig hv. þm. Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur, sem hér talaði síðast, fyrir þeirra innlegg í umræðuna. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra nefndi nokkur efnisleg atriði sem við þekkjum að eru viðkvæm í þessu sambandi og þá ekki síst það sem snýr að aflífunarákvæðunum og gildruveiðum á mink. Ég vil bara nefna að frumvarpið hefur tekið þar nokkrum breytingum í því skyni að reyna að miðla málum milli þeirra sem telja óumflýjanlegt að leyfa þær aðferðir áfram, þær séu árangursríkastar og skili mestum árangri í að halda minkastofninum niðri, og auðvitað annarra sem telja mikinn vafa leika á því að það samræmist góðum dýraverndarsjónarmiðum að leyfa þessa aðferð.

Sú breyting er fólgin í því að það er alfarið takmarkað og bundið við að um sé að ræða viðurkenndar skipulagðar aðgerðir opinberra aðila í þessu sambandi. Væntanlega þýðir það þar af leiðandi að það verður ekki í valdi hvers og eins og menn hafa ekki heimildir til að nota þessa aðferð nema þeir séu í raun fagmenn á þessu sviði og séu að því sem hluta af viðurkenndum áætlunum og aðgerðum. Að sjálfsögðu er þetta eitt af þeim viðkvæmu atriðum sem er æskilegt að þingnefndin fari mjög vandlega yfir. Við þekkjum ólík sjónarmið í þessum efnum og er mikilvægt að reyna að finna þar flöt sem allir geta orðið sæmilega sáttir við.

Sömuleiðis varðandi mögulegt dýrahald í dýragörðum er að sjálfsögðu nauðsynlegt að allar heimildir séu til staðar í höndum stjórnvalda til að tryggja að að því marki sem slíkt kann að koma til hér eða er til staðar hér, þá fari það vel fram og sé í samræmi við ýtrustu kröfur um velferð dýra.

Stjórnvaldssektir, viðurlög og atbeini lögreglu í vissum tilvikum, og vel að merkja hafa öll þau ákvæði verið unnin í mjög nánu samráði við innanríkisráðuneytið, eru að sjálfsögðu alltaf vandasöm mál en hitt er jafnljóst að það er ekki hægt að leggja þá skyldu á herðar stofnun eins og Matvælastofnun, sem ekki fer með löggæsluhlutverk almennt, að sjá um eftirlit og framkvæmdir í þessum málaflokki ef hún hefur ekki úrræði eða getur leitað eftir úrræðum til að knýja fram umbætur þegar þess er þörf. Þetta er afmarkað við ítrekuð og alvarleg brot, og það eru því miður dæmi um að slíks hafi reynst þörf og þá með dómsúrskurði o.s.frv., en hér er þetta að hluta til fært nær venjulegum stjórnvaldsheimildum, sektar- og viðurlagaákvæðum og þá að lögregla sé til kvödd ef málin eru alvarlegs eðlis. Ég treysti því að allt þetta, og gæti nefnt nokkur atriði í viðbót, skoði hv. þingnefnd vandlega.

Við komum einnig til móts við sjónarmið til dæmis að taka sem voru uppi síðastliðið vor um að ekki væri nægilega vel frá því gengið hvernig ætti að tryggja rétt grasbíta til útivistar á því sem var í fyrri útgáfu frumvarpsins kallað gróið land, og gerðu þá breytingu að nú er talað um beitarhæft land þannig að það sé ljóst að grasbítarnir eigi beitarmöguleika á til þess hæfu landi þegar þeir eru í sinni útivist.

Hv. þm. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir nefndi stöðu sveitarfélaganna, sem ég kom lítillega inn á, og dró alveg réttilega athygli að þeirri staðreynd að sveitarfélögin hafa kannski haft ýmsum skyldum að gegna og borið ábyrgð í þessum málaflokki umfram það sem almennt gerist gagnvart öðrum atvinnugreinum. Það á sér að sjálfsögðu fornar sögulegar rætur. Ætli það megi ekki nálægt því segja að sveitarfélögin í landinu eða hrepparnir fornu hafi orðið til vegna verkefna eins og fjallskila, refaeyðingar og seinna fátækraframfærslu og slíkra hluta. Ég kann alla vega svo mikið að þegar ég var að grúska einu sinni í því hversu langt aftur mætti finna heimildir um aðgerðir til að eyða ref þá röktu þær sig alveg ótrúlega langt aftur, alveg aftur undir söguöld, og það kom í ljós að þetta var eitt af því sem kallaði á það að menn byrjuðu að skipuleggja sig svæðisbundið og leiddi síðar til tilkomu hreppanna. Það voru fjallskilamálin og það voru skyldur manna í sambandi við refaeyðingu. Þetta er ekki nýtt af nálinni þegar kemur að búskapnum og hlutverki sveitarfélaganna þar um. En það má kannski segja að við séum með þessum breytingum að færa stjórnsýsluna á þessu sviði nær því sem almennt gengur og gerist.

Að lokum varðandi kostnaðinn þá er núningur um þetta mál sem við getum sagt að hlaupi á nokkrum tugum milljóna. Hann er ekki nýr af nálinni þegar ríki og sveitarfélög ræða kostnaðarmál. Hann er dálítið óvenjulegs eðlis hér. Venjan hefur auðvitað verið sú að sveitarfélögin tíunda nokkuð ákveðið við okkur þann kostnað sem þau hafi af málaflokkum og finnst oft að hann sé mikill og kvarta stundum undan því að ríkið setji ýmsar reglur, lög og kvaðir sem sveitarfélögum sé síðar ætlað að framkvæma og hafi í för með sér heilmikinn kostnað.

Það má segja á léttum nótum að nú beri svo við að þegar ríkið ætlar að taka yfir ákveðin verkefni frá sveitarfélögunum sem þau hafa haft með höndum varðandi forðagæsluna, búfjáreftirlitið og þetta, þá kannist sveitarfélögin ekki við að það hafi verið mjög dýrt. Það er hluti deilunnar sem hér er undir. En hitt er þó meira þarna á ferðinni og það er alveg rétt að það er ákveðin óvissa í því hvað felst í þeim skyldum sem áfram og eftirleiðis og sumpart nýjar eru lagðar á sveitarfélögin í þessu, því þær eru til staðar svo sem eins og hjálparskyldan og þegar fanga þarf hálfvillt eða villt dýr o.s.frv., og kannski er þá skásti kosturinn að láta bara reynsluna skera úr um það. Stundum hefur það orðið þrautalendingin, þegar verkaskipting hefur breyst milli ríkis og sveitarfélaga, að menn hafa sett upp tiltekinn reynslutíma, fylgst með því hver kostnaðarþróunin verður og lesið svo í það eftir þrjú, fjögur ár eða svo.

En aðalatriðið er að það væri auðvitað algerlega fráleitt að láta þetta mál, sem almennt er samstaða um að sé til mikilla bóta og framfara, stranda á léttvægum deilum, að mínu mati, um ekki meiri fjárhagslega hagsmuni en þetta. Ríkið er ekkert að biðjast undan því að það ætlar að taka á sig talsvert aukinn kostnað enda er meiningin að gera betur í þessum málaflokki. Ég vil leggja á það áherslu hér þó að fáir hlýði nú á mál mitt, en það er þá fyrir þingtíðindin, að það er auðvitað algerlega ljóst að Matvælastofnun verður að fá þá fjármuni sem liggur fyrir að mun þurfa þar á bæ til að sjá sómasamlega um þetta. Hún á í nógum erfiðleikum með að halda uppi sínum lögbundnu skyldum og sínum risavöxnu og flóknu verkum varðandi dýralæknaþjónustuna og matvælamálin og allt það sem þar er annast um fyrir, þó það bættist ekki við að hún fengi þetta viðfangsefni án þess að fá fullnægjandi fjármuni með því. Það er nauðsynlegt að Alþingi horfist í augu við það áður en það afgreiðir málið og gerir það að lögum og tengt þá auðvitað gildistökunni sem enn er stefnt á að verði um áramót, ef svo vel gengur, að þá fylgi því nægjanlegar fjárveitingar.