141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

fríverslunarsamningur við Kína.

[15:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það gleður mig, þótt það beri nýrra við, að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli vera sérstakur áhugamaður um aukin tengsl við Alþýðulýðveldið Kína og ég hef gert mér far um að standa undir væntingum formanns Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði, það voru gefnar sverar yfirlýsingar um það, bæði af hálfu hæstv. forsætisráðherra og forsætisráðherra Kína sem og aumum mér, að stefnt væri að því að ljúka fríverslunarsamningi við Kína fyrir lok næsta árs.

Það sem gerst hefur frá því að Wen Jiabao fór héðan af landi er það að sendimenn mínir hafa farið til Kína og átt þar fundi. Það var að vísu ekki formleg samningalota en þar var verið að undirbúa næstu lotu í þessum fríverslunarviðræðum sem verður haldin hér á landi í næsta mánuði, þ.e. í desember. Ég vona að bæði ég og hv. þingmaður getum glatt okkur í lok árs með því að senda á loft nokkrar kínverskar skotflaugar til að fagna þessum áfanga í samskiptum ríkjanna tveggja. (Gripið fram í.)