141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

hækkun skatta á ferðaþjónustu.

[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki tilefni til þess að endurskoða áform um hækkun skatta á ferðaþjónustuna, einkum og sér í lagi hækkun virðisaukaskatts á gistingu sem mundi þýða að íslensk hótel og gistiheimili greiddu líklega hæsta virðisaukaskatt í heimi á sviði þar sem er gríðarleg samkeppni um allan heim, og einnig áform um hækkun vörugjalda á bílaleigubíla sem eru að sjálfsögðu nauðsynlegir til að dreifa ferðamönnum sem víðast um landið en það hefur, að því er ég tel, verið eitt af markmiðunum með uppbyggingu ferðaþjónustu.

Frá því að áform ríkisstjórnarinnar um hækkun skatta á ferðaþjónustuna voru kynnt hafa verið gerðar ýmsar greiningar á því hvaða áhrif þessar hækkanir mundu að öllum líkindum hafa. Jafnvel varfærnar áætlanir gefa til kynna að afraksturinn, hvort heldur sem litið er til tekna ríkisins, nettótekna, eða áhrifa á samfélagið í heild, yrði neikvæður, þ.e. fækkun ferðamanna yrði slík að tekjur samfélagsins og ríkisins mundu dragast saman ef þessi áform yrðu að veruleika.

Ég taldi ágætissamstöðu um það í stjórnmálum á þingi að efla ferðaþjónustuna því að hún væri mjög mikilvæg vaxandi atvinnugrein á sviði útflutnings þar sem við þyrftum sérstaklega á vexti að halda. Maður veltir því fyrir sér hvort þær upplýsingar sem fram hafa komið eftir að þessi áform voru kynnt hafi ekki orðið til þess að hæstv. ráðherra telji rétt að endurskoða fyrirhugaðar skattahækkanir.