141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

hækkun skatta á ferðaþjónustu.

[15:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ef hæstv. ráðherra leiðréttir mig ekki ætla ég að skilja svar hans sem svo að hann telji tilefni til þess að endurskoða þau áform sem ríkisstjórnin hefur kynnt varðandi hækkun skatta á ferðaþjónustuna.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki sé rétt við þá endurskoðun að leggja mat á heildaráhrifin, endanleg áhrif, þ.e. líta til langtímaáhrifa og heildaráhrifa af skattbreytingunum, eða skattahækkununum svo að við köllum þetta réttu nafni. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að verið sé að skekkja samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu það mikið að það leiði til fækkunar ferðamanna sem á endanum skili samfélaginu minni tekjum, er þá ekki rétt að styrkja frekar stöðu ferðaþjónustunnar en hitt? Framlegð í þessari grein hefur þrátt fyrir vöxtinn verið með minnsta móti og samkeppnin er auðvitað gríðarlega mikil. Við höfum séð hversu mikil áhrif það hefur haft í Þýskalandi að þeir skyldu ákveða að lækka skatta á gistingu þar. Þar hefur ferðamönnum fjölgað á meðan Danir eiga í mesta basli verandi með (Forseti hringir.) næsthæstu skattana, þ.e. ef Ísland nær fyrsta sætinu.