141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

hækkun skatta á ferðaþjónustu.

[15:20]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Að sjálfsögðu þarf að huga að heildarmyndinni. Þar held ég að ýmislegt kæmi mönnum á óvart, ef það er skoðað, eins og það að skattalegt umhverfi ferðaþjónustunnar í dag er sennilega með því hagstæðasta ef ekki það hagstæðasta sem fyrirfinnst. Talsverðir hlutar þjónustunnar eru án virðisaukaskatts, sumir þeirra hafa að vísu ekki frádráttarheimildir á innskatti eins og eðlilegt verður að teljast, en síðan er gistingin og veitingasalan hér með 7% þrepi sem mun vera eitt það lægsta sem fyrirfinnst.

Það er vissulega rétt að innan Evrópu er þetta á breiðu bili, allt frá 8–9% og upp í 12–14% og svo Danir með sinn skatt á endanum. Við þurfum líka að huga að fleiru en í sjálfu sér bara því hvaða áhrif þetta hefði t.d. á áætlaða fjölgun ferðamanna næstu árin eins og sumir nota sem einföld rök. Ef drægi eitthvað úr þeirri miklu fjölgun erlendra ferðamanna sem hefur verið í gangi og horfir til þá eigi bara ekkert að gera þetta. (Forseti hringir.) Það hlýtur líka að vera markmið að grein sem þessi skilji sem mest eftir í hagkerfinu. Við megum ekki bara horfa á það sem markmið að hrúga endalaust hingað inn auknum fjölda ferðamanna heldur líka að þeir sem hingað koma gefi af sér þær tekjur sem við gjarnan viljum að verði eftir í hagkerfinu.