141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

innflutningur á lifandi dýrum, hráu kjöti og plöntum.

[15:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mér leikur forvitni á að vita með hvaða hætti stjórnvöld ætla að gæta hagsmuna Íslands í samningsafstöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu um 12. kafla sem fjallar um matvælaöryggi, dýra- og plöntuheilbrigði.

Nú hafa fulltrúar Bændasamtaka Íslands og sérfræðingar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum sent utanríkismálanefnd áskorun þar sem áréttuð er sú skoðun Bændasamtakanna og þessara sérfræðinga að kröfur Íslands um að viðhalda banni við innflutningi á lifandi dýrum og erfðaefni þeirra séu ekki umsemjanlegar í ESB-aðildarviðræðunum.

Mér leikur forvitni á að vita hver afstaða hæstv. atvinnuvegaráðherra er til þeirra samningsmarkmiða sem við erum að vinna að og reyna að hafa samráð við utanríkismálanefnd um. Er afstaða hæstv. ráðherra sú að það sé ekki rétt og undir engum kringumstæðum hagsmunir Íslands að setja inn ófrávíkjanleg skilyrði í samningsmarkmið okkar? Er aldrei hægt að gera það? En ef ráðherrann er á þeirri skoðun að það sé hægt, er þá ekki einmitt hægt að gera það hér? Mig langar að spyrja um þetta og eins: Ef það er rétt að hvergi sé hægt að tína til okkar ýtrustu kröfur í þessum samningaviðræðum, hvernig á þá að halda þeim á lofti? Verður það þá líka þannig þegar við förum að tala um sjávarútvegskaflann að þar megi ekki skrifa hvað okkur langar raunverulega að semja um eða hvað við ætlum okkur raunverulega að tala um í þeim viðræðum af ótta við að ESB fái bakþanka yfir því að við séum ekki í samningaviðræðunum af fullum þunga? Hver er afstaða hæstv. ráðherra? Er hann ekki sammála fulltrúum Bændasamtaka Íslands og sérfræðingum okkar á Keldum um að þetta eigi að vera eitt af okkar ófrávíkjanlegu skilyrðum?