141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

innflutningur á lifandi dýrum, hráu kjöti og plöntum.

[15:27]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Já, þetta er orðaleikfimi. Ég skal svara alveg skýrt: Nei, það kemur ekki til greina. Það kemur ekki til nokkurra mála að við víkjum frá því að geta viðhaft hér takmarkanir á innflutningi á lifandi dýrum. Saga Íslands ber með sér hversu stórhættulegt það er. Ég skil ekki af hverju við þurfum að ræða hvert við annað eins og einhverja fyrirframsvikara ef við erum sammála um að við ætlum ekki að gefa þetta eftir, það komi ekki til greina. Þetta er atriði af því tagi sem ég tel að komi ekki til greina að gefa eftir. Þess vegna er eytt í það mikilli orku að undirbyggja þá samningsafstöðu og rökstyðja hana þannig að við höfum sterka stöðu þegar til viðræðna kemur og menn skilji það að þetta er eitthvað sem Ísland verður augljóslega að fá í gegn. Þannig tel ég að við eigum að nálgast þetta.

Varðandi þá grundvallarhagsmuni okkar sem mikilvægastir eru á sviði landbúnaðar, byggðamála, matvælaöryggis, sjúkdómavarna, sjávarútvegsmála o.s.frv. (Forseti hringir.) og áhersluna sem við leggjum á mismunandi þætti munu menn meðal annars sjá þá í þeirri orku sem lögð er í að rökstyðja ítarlega og rækilega og þeim mun ítarlegar og rækilegar sem þeir eru mikilvægari.