141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

vegarstæði um Gufudalssveit.

[15:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. innanríkisráðherra að tíminn að lausn máls sé talinn í vikum en ekki mánuðum enda tel ég mjög brýnt orðið að sjá fyrir endann á þessari áralöngu raunasögu, þessum samgönguvandræðum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Aðalatriðið er þó, tel ég, að ná samstöðu með heimamönnum um ásættanlega lausn því að ég tel að byggðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum, atvinnulífið, þjónustan og mannlífið þar yfirleitt, megi ekki við því að bíða lengur eftir tengingunni við þjóðvegakerfi landsins. Ég held satt að segja að þessi leið I gæti verið salómonsdómurinn og lausnin, bæði fjárhagslega og samgöngulega, í þessu máli, sérstaklega ef menn vildu nú skoða það í alvöru að láta veginn fara út með Þorskafirði (Forseti hringir.) og tengjast Reykhólum og tengja þar með byggðarlög auk þess að koma með ásættanlega vegtengingu út úr kjördæminu.