141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar á íþróttasvæðum.

[15:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mín skoðun er sú að áfengisneysla og sala og umgengni við áfengi fari almennt ekki með barnastarfi. Hv. þingmanni er kunnugt að þegar það var rætt fyrr á þessu ári að hefja sölu áfengis á íþróttakappleikjum varð ekkert úr þeirri hugmynd enda er það bannað með landslögum. Afstaða flestra þeirra sem tjáðu sig af hálfu íþróttahreyfingarinnar var mjög einörð, að þetta ætti ekki heima þar enda væru íþróttasvæði þar sem börn og fullorðnir eiga jafnan aðgang ekki staðurinn til að selja áfengi.

Eins og hv. þingmaður þekkir þá eru áfengisauglýsingar bannaðar. Það á bæði við um fjölmiðla, íþróttahús og það á við um aðra staði. Kveðið er á um þetta í áfengislögum og ég held að hv. þingmaður hafi nefnt 20. gr. áfengislaga í því sambandi. Viðbrögð við því eru að tilkynna þau mál til lögreglu eins og hv. þingmaður nefndi að hefði verið gert. Ef um er að ræða áfengisauglýsingar í fjölmiðlum er unnt að leita til fjölmiðlanefndar sem tekur á þeim málum.

Fyrirspurn hv. þingmanns snerist kannski helst um mat mitt á þessu og það er á þá leið að þetta eigi ekki heima með og fari ekki saman með íþróttastarfi eða æskulýðsstarfi. Það mat gerir ekkert annað en að fara saman við landslög sem eru þau að áfengisauglýsingar eru bannaðar og þeim landslögum á að fylgja, ekki aðeins í þessu umhverfi heldur alls staðar þar sem þær birtast.