141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar á íþróttasvæðum.

[15:38]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara þessu með þessum hætti en mig langar samt til að endurtaka spurninguna og spyrja hvað sé til ráða. Það er ljóst að ríkið styður íþróttahreyfinguna með beinum fjárframlögum og ég velti því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að gera könnun á umfangi þessa hjá íþróttahreyfingunni og jafnvel skilyrða framlög til íþróttafélaga því að íþróttafélögin fari að lögum í fjáröflun sinni og útbíi ekki leikvanga eða fótboltavelli með áfengisauglýsingum.

Við vitum að áfengisauglýsingar, eins og aðrar auglýsingar, hafa áhrif og við sjáum það best á því hversu sterkir hagsmunaaðilar, þ.e. áfengisframleiðendur, dreifendur og seljendur, eru og hversu lágt þeir leggjast oft til að reyna að komast í kringum áfengissölubannið. Ein (Forseti hringir.) birtingarmynd þess, frú forseti, er að það gengur ákaflega erfiðlega að koma fram styrkingu á þessum lögum hér í hv. Alþingi.