141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar á íþróttasvæðum.

[15:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að flýta má þeirri vinnu sem staðið hefur yfir við að skoða styrkingu á áfengislögunum. Ég tel að það sé góð hugmynd hjá hv. þingmanni að kanna stöðu þessara mála.

Mörg þessara íþróttahúsa eru í eigu sveitarfélaga en sum hver eru rekin af einkaaðilum sem væntanlega sjá þá um sölu auglýsinga og hagnaðurinn rennur þá alls ekki til íþróttafélaganna. Áður en við höldum áfram með þetta mál held ég að rétt væri að kanna hvar slíkar auglýsingar hafa birst og hverjir taka ágóðann af slíkum auglýsingum, áður en frekari skref verða stigin. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna og tel rétt að þetta verði skoðað.