141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

trúnaður í störfum nefnda.

[15:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hæstv. forseta að beita sér í einu máli. Hér fékk hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra fyrirspurn áðan og ekkert óeðlilegt við það að sjálfsögðu og hæstv. ráðherra svaraði því eðlilega. Fyrirspurnin varðaði samningsafstöðu í viðræðum við Evrópusambandið. Hæstv. ráðherra sagði meðal annars að honum hefði ekki verið bent á annað en að í þeim sé hagsmuna Íslands gætt.

Frú forseti. Mér er vandi á höndum. Ef ég ætlaði að tala hér og hafa aðra skoðun á þessu en hæstv. ráðherra væri ég að brjóta þann trúnað sem mér er skipað að hafa í utanríkismálum.

Frú forseti. Það er ekki hægt að búa við það að við sem sitjum í nefndinni getum ekki talað um þessi mál með sama hætti og mér finnst að ráðherrarnir geri. Ég fer því fram á að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að trúnaði á þessum málum í utanríkismálanefnd, á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, verði aflétt.

Það getur ekki verið að við sem sitjum í nefndinni séum svo múlbundin að við getum ekki tjáð okkur um málið hér í þingsölum með eðlilegum hætti.