141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

trúnaður í störfum nefnda.

[15:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það hefur komið skýrt fram bæði í máli hv. formanns utanríkismálanefndar og hv. varaformanns nefndarinnar að nefndin hafi ekki það hlutverk að samþykkja samningsafstöðuna sem slíka eða afgreiða hana frá sér. Hlutverk nefndarinnar sé eingöngu að kynna sér um hvað þar er að ræða.

Í mörgum tilvikum er verið að kynna fyrir nefndarmönnum á þessum fundum hluti sem þegar eru í umræðunni, sem þegar er ljóst hvert stefna og meira að segja hæstv. ráðherrar ræða í þinginu, eins og við sáum dæmi um áðan. Því vil ég biðja hæstv. forseta að kveða upp úr um það hvort þingmönnum sé óhætt að tjá sig um mál sem eru í umræðu í samfélaginu, jafnvel þótt sömu mál hafi síðan verið tekin fyrir á fundi í utanríkismálanefnd. Eða er það þannig, virðulegi forseti, að þingmenn þurfi sérstaklega að láta hjá líða að mæta á þá fundi til að vera þar með ekki múlbundnir um þessi mál?